„Ég á margar góðar minningar frá þessari laug,“ segir Atli Sigurðarson, sem deildi myndum af ömurlegri umgengni í Seljavallalaug í Facebook-hópinn Bakland ferðaþjónustunnar í gær.

Í búningsaðstöðunni við laugina hafa gestir hennar skilið eftir sig mikið magn af rusli. Aðkoman er vægast sagt sóðaleg.

Seljavallalaug er 25 metra jarðhitalaug sem staðsett er í Laugárgili undir Eyjafjöllum. Enginn annast laugina eða rukkar í hana. Hún stendur öllum opin. The Guardian valdi sundlaugina eina bestu sundlaug veraldar fyrir fáeinum árum. Þar er nú töluverður straumur ferðamanna.

Atli segir að hann hafi verið í sveit í Fljótshlíðinni 1973, þegar hann var 13 ára. Hann hafi farið vikulega í laugina til að synda og eigi þess vegna ljúfar minningar þaðan. „Fór í gær ásamt kærustu minni til að upplifa góðar minningar eins og svo oft áður, en fór frá lauginni með sorg í hjarta,“ segir hann.

Hann segist „plokka“ þegar hann er á göngu en honum sé illa við að segja fullorðnu fólki til með hluti sem eigi að vera sjálfsagðir, þegar ungengni er annars vegar. „Í gær spurði ég hins vegar tvo drengi sem voru að erlendu bergi brotnir og voru að drekka bjór í lauginni, hvort þeir myndu ekki taka dósirnar með sér þegar þeir færu til baka. Þeir lofuðu því.“

Í þræðinum við færslu Atla greinir einn notandi frá því að hann hafi í þrígang hreinsað svæðið frá því í desember. „Það skiptir ekki máli hversu mikið við tökum til, það verða alltaf til sóðar sem koma og skilja ruslið sitt eftir. Síðast fylltum við 14 stóra ruslapoka úr skiptiklefunum - að ógleymdum notuðum smokkum sem við þurftum að tína upp við laugina.“