Íbúar í Papúa, austasta og stærsta fylki Indónesíu, kveiktu í gær í skrifstofu ríkisrekna fjarskiptafyrirtækisins Telkomunikasi Indonesia og mótmæltu af krafti. Mótmælin hafa staðið yfir í á aðra viku. Krefjast mótmælendur annars vegar þess, samkvæmt Reuters, að látið sé af mismunun í garð íbúa svæðisins og hins vegar þess að Papúa-búar fái að greiða atkvæði um sjálfstæði fylkisins.

„Ýmis aðstaða hins opinbera og eignir urðu fyrir miklu tjóni vegna óeirða. Yfirvöld reyna nú að ná stjórn á svæðinu,“ sagði Dedi Prasetyo, upplýsingafulltrúi ríkislögreglustjóra.

Rafmagn var tekið af umhverfis byggingu Telkomunikasi Indonesia vegna íkveikjunnar og lögregla skaut táragasi að mótmælendum eftir að þeir kveiktu í bílum og grýttu skrifstofur og verslanir. Þá lokaði ríkisorkufyrirtækið Pertamina bensínstöðvum á svæðinu.