Tug­þúsundir mót­mælenda söfnuðust saman í Brussel í dag til þess að mót­mæla hertum að­gerðum ríkis­stjórnar Belgíu í bar­áttunni gegn kóróna­veirufar­aldrinum. Mót­mælin fóru þó fljót­lega úr böndunum og um­breyttust í ó­eirðir.

Frá þessu er greint á vef Politico.

Lög­reglan í Brussel telur að um 35 þúsund mót­mælendur hafi verið saman­komin þegar mest lét. Fjöldi smita hefur aukist hratt undan­farnar vikur í Belgíu og greip ríkis­stjórnin því til þess ráðs að herða sam­komu­tak­markanir.

Lögregla greip til ýmissa ráða til þess að halda aftur af mótmælendum.
Mynd/EPA

Mót­mælendur hófu að kasta öllu laus­legu í átt að lög­reglu, sem svaraði með notkun vatnsbyssa og tára­gass til þess að fæla ó­eirða­seggina frá.

Yfir 10 þúsund ný smit greindust dag­lega frá sjöunda til þrettánda nóvember og inn­lögnum á spítala fjölgaði um­fram það sem við varð ráðið.

Ríkis­stjórnin lagði meðal annars á fjögurra daga heima­vinnu­skyldu og stór­herti grímu­skyldu. Nú­verandi tak­markanir eiga að gilda til tólfta desember og eftir það má fólk mæta í tvo daga í vinnu, í stað eins, ef miðað er við hefð­bundna fimm daga vinnu­viku.

Hér má sjá nokkrar myndir frá mótmælunum:

Fréttablaðið/Getty
Fréttablaðið/Getty
Fréttablaðið/Getty
Fréttablaðið/Getty
Fréttablaðið/Getty