Að minnsta kosti fjórtán mótmælendur hafa látið lífið í óeirðum í Perú. Stjórnvöld eru búin að lýsa yfir neyðarástandi í kjölfar mikilla mótmæla sem hófust eftir að Pedro Castillo, fyrrverandi forseti landsins, var handtekinn.
Ríkisstjórn Perú kynnti neyðarlög á miðvikudaginn og sagði að lögin myndu gilda í 30 daga. Perúski herinn hefur verið sendur á götur landsins og hafa stjórnvöld meðal annars bannað mótmæli og fjöldasamkomur.
Mótmælin hafa sameinað marga ólíka hópa í landinu, þar á meðal verkalýðsfélög og frumbyggja úr Amazon-regnskóginum. Fólkið segist líta á nýjan forseta Perú, Dinu Boluarte, sem valdaræningja og hefur kallað eftir því að hún segi af sér og að Pedro Castillo verði komið aftur fyrir á valdastóli.
Utanríkisráðherrann hefur einnig tilkynnt að sendiherrar Perú í Argentínu, Kólumbíu, Mexíkó og Venesúela verði kallaðir heim, þar sem ríkisstjórnir þessara ríkja hafa ekki viðurkennt Boluarte sem forseta.
Margir ferðamenn eru einnig strandaglópar við ferðamannastaðinn Machu Picchu. Eina leiðin inn og út af svæðinu er með lest sem hefur verið skemmd af mótmælendum og hafa embættismenn meðal annars beðið um þyrlur til að hjálpa við að flytja ferðamenn út af svæðinu.