Skiptar skoðanir eru á nýju vaktafyrirkomulagi Slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu sem tók formlega gildi í dag. Tilgangurinn með breytingunum er að auka möguleikann á að samþætta vinnu og einkalíf, auk þess að gera vaktavinnu aðgengilegri fyrir stærri hóp.

Í nýja fyrirkomulaginu verða þrískiptar vaktir á virkum dögum í stað tólf tíma vakta, en um helgar verða áfram tólf tíma vaktir. Birgir Finnsson, starfandi slökkviliðsstjóri, er mesta breytingin fyrir starfsfólk að aðlagast nýju skipulagi og nýjum starfsfélögum, en lengst af hafa ekki verið miklar hreyfingar hjá fólki á milli vakta.

Sigurður Lárus Fossberg, varðstjóri hjá slökkviliðinu, segir að breytingarnar muni taka tíma, en það verði gott að fá styttri vaktir.

„Breytingarnar leggjast nokkuð vel í mig, þetta er í takt við tímann og það sem fólk er að kalla eftir, styttri vinnutíma og meiri tíma með fjölskyldunni. Þetta er nýtt fyrir okkur eldri starfsmenn sem erum búnir að vera lengi á tólf tíma kerfinu, en það er líka gott fyrir okkur sem erum orðin þetta fullorðin og búin að vera lengi á vöktum, að fá þá styttri vaktir líka,“ segir Sigurður.

„Þetta eru stærstu breytingar innan slökkviliðsins í fjölda ára. Auðvitað eru misjafnar skoðanir á þessu og menn hafa misjafna sýn. En við vonumst til að tíminn muni leiða það í ljós að þetta sé gott kerfi og hollt fyrir okkur og að allir verði sáttir,“ segir Sigurður.