Óttar Kolbeinsson Proppé
ottar@frettabladid.is
Laugardagur 3. apríl 2021
17.15 GMT

Ó­eining er innan stjórnar­flokkanna á þingi um nýjar reglur heil­brigðis­ráð­herra á landa­mærunum sem skylda alla Ís­lendinga sem koma til landsins frá dökk­rauðum og gráum löndum til að dvelja í sótt­varna­húsi í fimm daga milli skimana. Stjórnar­and­staðan er heldur ekki sam­einuð í málinu.

Nýju reglurnar, sem tóku gildi á fimmtudag, hafa vakið mikla at­hygli síðustu daga ekki síst vegna ó­sáttra Ís­lendinga sem þurfa að dvelja á sótt­kvíar­hótelinu og fá ekki að taka sótt­kvína út á heimilum sínum eða jafnvel sumarbústöðum. Þá hafa allavega tveir sem dvelja á hótelinu á­kveðið að leita réttar síns og telja sig hafa verið svipta frelsi án laga­legrar heimildar. Það er ein­mitt þessi laga­legi á­greiningur um heimildir ráðherrans sem virðist helst kljúfa bæði stjórnar­flokkana og stjórnar­and­stöðuna í málinu.

Tvær fylkingar og Sjálfstæðismenn í báðum

Frétta­blaðið hefur rætt við nokkra þing­menn allra flokka um málið og svo virðist sem að til mikillar ein­földunar sé hægt að skipta flokkunum upp nokkurn veginn upp í tvo hópa;

Þá sem styðja reglugerðina algjörlega:

  • Vinstri grænir
  • Framsóknarflokkur
  • Flokkur fólksins

Og hina sem hafa annaðhvort lýst yfir stórum efasemdum um lögmæti aðgerðanna eða finnst hreinlega gengið of langt í þeim:

  • Píratar
  • Samfylking
  • Viðreisn
  • Miðflokkurinn

Á meðan stendur Sjálf­stæðis­flokkurinn klofinn í málinu; hluti þing­manna hans hefur verið afar harð­orður í gagn­rýni sinni á sótt­varna­að­gerðir frá upp­hafi og hafa enn fleiri innan þing­flokksins leyft sér að efast um nýja reglu­gerð heil­brigðis­ráð­herra. Aðrir í þingflokknum láta sig málið ekki miklu skipta og styðja að mestu við aðgerðir heilbrigðisráðherrans.

Svan­dís Svavars­dóttir heil­brigðis­ráð­herra hefur verið boðuð á fund vel­ferðar­nefndar eftir helgi til að fara yfir málin.
Fréttablaðið/Ernir

Hvað má og hvað má ekki?

Frétta­blaðið ræddi við þing­menn innan Sjálf­stæðis­flokksins og virðast þar nokkuð skiptar skoðanir um málið. Eða eins og einn þeirra komst að orði: „Það má held ég finna allan skalann af skoðunum í þessu máli innan þing­flokksins."

Vil­hjálmur Árna­son, vara­for­maður þing­flokks Sjálf­stæðis­flokksins sem situr í vel­ferðar­nefnd, sagði þá við Frétta­blaðið í gær: „Við höfum verið mjög efins með að það sé heimild fyrir þessu.“ Hann telur þannig ekki að þær breytingar á sótt­varna­lögum, sem fóru í gegnum vel­ferðar­nefnd síðasta janúar, veiti ráð­herra svo víð­tæka heimild til að svipta ís­lenska ríkis­borgara frelsi.

Í nýbreyttum sóttvarnalögum er til að mynda hugtakið sóttvarnahús skilgreint svo:

„Staður þar sem einstaklingur, sem ekki á samastað á Íslandi eða getur af öðrum sökum ekki eða vill ekki einangra sig í húsnæði á eigin vegum, getur verið í sóttkví eða einangrun vegna gruns um að hann sé smitaður af farsótt eða ef staðfest er að svo sé.“

Ljóst er að þar segir ekkert um að skylda megi fólk til að dvelja í sóttvarnahúsum en það er þó gert síðar í 14. grein laganna:

„Hafi einstaklingur fallist á samstarf um að fylgja reglum um einangrun eða sóttkví, en í ljós kemur að hann hefur ekki fylgt þeim, getur sóttvarnalæknir ákveðið að hann skuli settur í sóttkví eða einangrun á sjúkrahúsi eða í sóttvarnahúsi eða gripið til annarra viðeigandi aðgerða.“

Þetta er þó háð því að „grunur leiki á að til­tekinn ein­stak­lingur sé haldinn smit­sjúk­dómi“.

Í nýju sótt­varna­lögunum er þá einnig kveðið á um heimild ráð­herra til að setja á reglu­gerðir vegna hættu á að far­sóttir berist til eða frá Ís­landi. Þar segir meðal annars að ráð­herrann „megi krefjast þess að ferða­menn: [...] Undir­gangist heil­brigðis­skoðun sem er eins lítið í­farandi og unnt er til að ná settu lýð­heilsu­­mark­miði. Ekki skal beitt inn­gripum nema gagn­vart þeim sem grunur leikur á að gæti hafa smitast.“

Þar er að­eins minnst á ferða­menn. Hvort Ís­lendingar, sem eru á heim­leið, flokkist undir það hug­tak virðist um­deilt. Enn fremur segir að ráð­herra sé heimilt að kveða á um í reglu­gerð að ein­staklingar gangist undir sótt­kví óháð því hvort grunur leiki á um að þeir hafi smitast en að­eins „til að bregðast við til­tekinni hættu eða bráðri ógn við lýð­heilsu“. Þing­menn virðast þá einnig ó­sam­mála um hvort tímarnir sem við lifum á nú og koma Ís­lendinga heim til landsins sé „hætta eða bráð ógn við lýð­heilsu“.

Umrætt sóttkvíarhótel sem opnaði síðasta fimmtudag við Þórunnar­tún.
Mynd/Rauði krossinn

Misjafn skilningur á því sem nefndin sendi frá sér

Svo virðist sem nefndar­menn vel­ferðar­nefndar séu ekki sam­mála um hvaða heimildir ráð­herra hafi verið veittar með nýju sótt­varna­lögunum, sem voru þó rædd inni í nefndinni.

„Þetta hefur verið rætt á fyrri stigum,“ segir Vil­hjálmur Árna­son um heimild ráð­herra til að skylda fólk sem kemur til landsins til að dvelja í far­sótta­húsi. Hann segir að deilt hafi verið um þá hug­mynd og hans skilningur verið sá að þau lög sem fóru í gegn um nefndina gæfu ráð­herra ekki heimild til þess. „Við þurfum að fá upp­lýsingar um það hvað það var sem breyttist sem varð til þess að ríkis­stjórnin fór í þetta núna,“ segir stjórnar­þing­maðurinn.

Þing­maður Vinstri grænna, Ólafur Þór Gunnars­son, sem situr í nefndinni tekur ekki bein­línis í sama streng og Vil­hjálmur: „Mitt mat var það þegar þetta var rætt í nefndinni að þá væri ráð­herra gefin þessi heimild. Ég held að eini á­greiningurinn snúist um það hvort á­standið sem er nú uppi megi flokka sem þetta hættu­á­stand sem verður að vera.“

Ólafur Þór og Halla Sig­ný fara yfir málin. Vil­hjálm má sjá líta niður í símann á bak við þau hægra megin á myndinni.
Fréttablaðið/Anton Brink

Bæði hann og þing­­kona Fram­­sóknar­­flokksins, Halla Sig­ný Kristjáns­dóttir, sem situr líka í nefndinni, styðja við reglu­­gerð heil­brigðis­ráð­herrans. „Ís­land er farið úr því að vera grænt land í að vera gult. Niður­­­staða okkar [í Fram­­sókn] er sú að við sam­þykktum þetta og stöndum við það. Við teljum að þetta sé það sem þarf að gera til að við náum tökum á veirunni,“ segir Halla Sig­ný.

„Málið er að, eins og hefur komið fram, menn og þá jafn­vel lög­­fræðingar og dómarar eru ekki sam­­mála um það hvað lögin segja til um. Hvort það megi vista fólk og hvort þetta stangist á við ein­hver önnur lög. Ég get ekkert sagt til um það en það er þá ekkert ó­­eðli­­legt að það sé látið reyna á þessi lög ef það þarf til,“ segir hún.

Tókst að boða til fundar

Stjórnar­and­stöðu­þing­menn nefndarinnar reyndu í gær að kalla nefndina saman á fund í páska­fríinu til að ræða þessi at­riði. Það var Hall­dóra Mogen­sen, þing­maður Pírata sem fór fyrst fram á það. Til að þing­nefnd geti komið saman í þing­hléi verða allir nefndar­menn að sam­þykkja það. Þing­flokks­for­maður Flokks fólksins sem á sæti í nefndinni, Guð­mundur Ingi Kristins­son, sagði þá við Vísi að hann ætlaði sér ekki sam­þykkja fundinn.

Guðmundur Ingi Kristinsson, þingflokksformaður Flokks fólksins.
Fréttablaðið/Ernir

„Ég segi fyrir mitt leyti að ef ein­hver efast um að þetta sé lög­­­legt, að þá á þetta bara að fara fyrir dóm­­­stóla, ekki vel­­­ferðar­­­nefnd,“ sagði Guð­­­mundur Ingi við Vísi. Hann styður ein­­­dregið við reglu­­­gerðina og vill fyrir alla muni koma í veg fyrir að fleiri smit komist inn í landið, þó það kosti nokkra ó­­­sátta Ís­­­lendinga næstu vikur. For­­maður flokksins, Inga Sæ­land, var sam­­mála honum í þessum málum og vill þá helst ganga enn lengra. „Við viljum helst skikka alla til að dvelja í sótt­varna­húsi við komuna til landsins, sama hvort þeir eru að koma frá gulum, ruðum eða dökk­rauðum löndum," segir hún við Frétta­blaðið. „Við viljum bara loka þessu alveg og fara Ný­sjá­lensku leiðina."

Í kjöl­farið áttuðu þeir nefndar­menn sem vilja funda um málið sig á því að þeir gætu boðað ráð­herra á fundinn. Í þing­skapa­lögum er kveðið á um að að­eins fjórðungur nefndar­manna þurfi að óska eftir því að ráð­herra komi á fund nefndarinnar til að hægt sé að funda í þing­hléi.

Vill frekar hert eftirlit með fólki í sóttkví

„Eins og þetta lítur út núna þá finnst mér þetta ganga allt of langt,“ segir Hall­dóra Mogen­sen, við Frétta­blaðið spurð hvers vegna hún vilji halda fundinn. „Ég sé ekki, eins og staðan er núna, að þetta standist lög.“

Halldóra Mogensen, þingflokksformaður Pírata.
Fréttablaðið/Eyþór

Hún segir að vilji nefndarinnar hafi verið mjög skýr þegar lögin komu úr hennar meðferð í janúar og hann hafi ekki verið til þess að ráð­herra gæti gripið til svo harka­legra að­gerða. For­maður nefndarinnar og þing­maður Sam­fylkingarinnar, Helga Vala Helga­dóttir, segist þá ekki til­búin að taka beina af­stöðu gegn reglugerðinni. „En það verður að fá það á hreint hvort það hrein­lega standist lög að setja þessar reglur,“ segir hún.

„Ef það er ekki laga­heimild fyrir þessu þá er ís­lenska ríkið skaða­bóta­skylt. Ég held að út­koman þá gæti orðið hræði­leg – ef í ljós kemur að þetta er ó­lög­legt og allir geta sótt háar bætur til ríkisins,“ heldur hún á­fram. „Í öðru lagi þá erum við að setja landa­mæra­verði í erfiða stöðu því ef ís­lenskur ríkis­borgari kemur og vill ekki fara í sótt­varna­hús þá er ekki hægt að vísa honum frá landa­mærunum. Það er hins vegar hægt að gera það við ferða­mennina.“

Helga Vala Helga­dóttir, þing­maður Sam­fylkingarinnar, er for­maður vel­ferðar­nefndar.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Að­spurð hvort hún sjái fyrir sér ein­hverjar betri lausnir í stöðunni en að skylda fólk til að dvelja í sótt­varna­húsi segir hún: „Við höfum talað fyrir því að vera með frekar í­þyngjandi reglur á landa­mærunum. Í Bret­landi þá banna þeir til dæmis Bretum að fara í ferða­lög án á­stæðu. En ég held að það væri best hjá okkur að herða ein­fald­lega eftir­lit með þeim sem eiga að vera í sótt­kví. Það hefur ekki verið neitt eftir­lit hingað til. Ekki einu sinni þegar fólk er að fara heim af flug­stöðinni, þá er það oft bara sótt af ein­hverjum á völlinn.“

Þorgerður Katrín, formaður Viðreisnar.
Fréttablaðið/Eyþór

Við­reisn er á svipuðum stað í málinu og Sam­fylking og Píratar. Hanna Katrín Frið­riks­son, þing­flokks­for­maður Við­reisnar og á­heyrnar­full­trúi í vel­ferðar­nefnd hefur stutt þá hug­mynd að nefndin komi saman og ræði málin. For­maður Við­reisnar, Þor­gerður Katrín Gunnarsdóttir, segir þá við Frétta­blaðið að henni finnist eðli­legast að fá þessi mál á hreint sem fyrst. „Við erum með miklar efa­semdir um að þetta standist lög. Þetta orkar mjög tví­mælis og það er brýnt að fara yfir þetta og sjá hvort allar laga­heimildir standist."

Mið­flokks­menn hafa hingað til talað fyrir frekar hörðum að­gerðum til að koma í veg fyrir að smit berist inn í landið. Í sam­tali við Frétta­blaðið sagði Berg­þór Óla­son þó að mjög miklar efa­semdir væru uppi um laga­heimildirnar og það þyrfti að fá úr þeim skorið. „Menn eru komnir á mjög þunnan ís þarna þegar þeir eru farnir að setja reglur sem er kannski ekki heimild fyrir.“

Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins.
Fréttablaðið/Anton Brink
Athugasemdir