Óeining er innan þingmeirihlutans um sóttvarnaaðgerðir heilbrigðisráðherra, ekki síst í kjölfar síðustu auglýsinga ráðherrans um og eftir helgina.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hafa þrír ráðherrar Sjálfstæðisflokksins verið í hópi efasemdamanna, þau Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra, Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ferðamálaráðherra og Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.

Ráðherrar bæði Framsóknarflokks og Vinstri grænna standi hins vegar sem einn maður að baki heilbrigðisráðherra.

Heimildir blaðsins herma einnig að dregið hafi úr óeiningu um aðgerðirnar allra síðustu daga vegna þess á hve miklu skriði faraldurinn er. Hins vegar hafi vakið furðu bæði ráðherra og þingmanna flokksins að heilbrigðisráðherra hafi samþykkt nýjar tillögur sóttvarnalæknis um hertar aðgerðir á höfuðborgarsvæðinu í fyrrakvöld án þess að ræða þær fyrst í ríkisstjórn eins og venjan hefur verið.

Efasemdir eru í þingflokki flokksins um aðgerðirnar.
Fréttablaðið/Vilhelm

Í þingflokknum gætir ekki aðeins óánægju meðal þeirra þingmanna sem tjáð hafa efasemdir sínar opinberlega. Margir í þingliði flokksins hafa áhyggjur af því að of langt sé gengið í að leyfa sérfræðingum að stýra ferðinni, enda verið að takmarka mjög athafnafrelsi fólks með aðgerðunum og eðlilegt að lýðræðislega kjörnir fulltrúar komi meira að ákvörðunartöku.

Ljóst er að Brynjar Níelsson hefur áhyggjur af lögmæti aðgerða heilbrigðisráðherra og telur of langt gengið á stjórnarskrárvarin réttindi einstaklinga og lýsti hann þeim áhyggjum sínum á opnum fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í gær. Þá hafa aðrir þingmenn lýst áhyggjum af því að meðalhófs sé ekki gætt við útfærslu einstakra aðgerða.

Að lokum hafa menn orðið verulegar áhyggjur af því að ekki sé tekið nægilega mikið tillit til afleiðinga aðgerðanna, bæði efnahagslega og félagslega.

„Ráðstafanir vegna sóttvarna­aðgerða eru auðvitað stöðugt til umræðu á okkar vettvangi í þingflokknum og ný sjónarmið rædd um þau skref sem eru tekin. Að öðru leyti vil ég ekki tjá mig um umræður sem eiga sér stað á vettvangi þingflokksins,“ segir Birgir Ármannsson, formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins.