Verð bíla í Bandaríkjunum er talsvert miklu lægra en hér á landi og íbúar Bandaríkjanna geta til að mynda valið um eftirtalda 10 bíla sem kosta undir 4 milljónum króna en eru allir 300 hestöfl eða meira. Sá öflugasti þeirra er hinn 485 hestafla Dodge Charger R/T Scat Pack með 6,4 lítra V8 Hemi vél. Hann er aðeins 4,2 sekúndur í 100 km hraða og 282 km hámarkshraða. Þessi bíll kostar 39.995 dollara vestanhafs, eða um 4 milljónir króna. Fyrir rétt um sama verð, eða 39.670 dollara má fá Lincoln MKZ 3,0T og er þessi 400 hestafla lúxusbíll 5,2 sekúndur í hundraðið. Fyrir aðeins 3,5 milljónir króna má svo fá venjulegan Dodge Charger R/T á 34.995 dollara. Með 5,7 lítra Hemi vél hans er spretturinn í 100 tekinn á undir 5 sekúndum. 

Kia Stinger GT má fá í Bandaríkjunum á 38.350 dollara, eða ríflega 3,8 milljónir króna en þessi 365 hestafla bíll er með 3,3 lítra V6 forþjöppudrifna vél. Fyrir 33.845 dollara má fá Ford Mondeo Sport með 325 hestafla 2,7 lítra Ecoboost V6 vél og með henni er bíllinn rétt um 5 sekúndur í hundraðið. Ódýr hestöfl þar. Subaru WRX STI má fá vestanhafs fyrir aðeins 36.095 dollara, en þessi bíll er 310 hestöfl og þar sem hann er fremur léttur bíll er hann aðeins 4,5 sekúndur í hundraðið. Buick Regal er líka 310 hestöfl og 6 sekúndur í 100 með sinni 3,6 lítra vél og kostar 39.070 dollara. Þessi bíll er fjórhjóladrifinn eins og Subaru WRX STI. 

Chevrolet Impala Premier er 305 hestafla bíll sem kostar aðeins 28.595 dollara, eða vel innan við 3 milljónir króna. Hann er með 3,6 lítra V6 vél og er 6,3 sekúndur í 100. Toyota Camry V6 er 301 hestafla bíll sem kostar 34.400 dollara og er 5,8 sek. í 100. Tíundi bíllinn sem nær 300 hestöflum og kostar innan við 4 milljónir króna er Infinity Q50 3,0T Luxe og þessi bíll flokkast sem lúxusbíll. Hann er með 3,0 lítra vél sem er slétt 300 hestöfl og kostar 38.950 dollara.