Lúsmý hefur gert fólki lífið leitt víða um land í sumar virðist hægt og bítandi vera að leggja landið undir sig. Óværan lét fyrst á sér kræla fyrir alvöru 2015 í Kjósinni en dreifir sér hratt.

Útbrotunum undan biti mýsins fylgir mikill og óþægilegur kláði og fólk leitar ýmissa leiða til þess að komast hjá árásum flugunnar illsýnilegu. Meindýraeyðar fá fjölmargar hjálparbeiðnir á hverju sumri og í þeim lyfjaverslunum sem Fréttablaðið hafði samband við er merkjanleg aukning milli ára í fyrirspurnum um krem og hvað eina sem kann að slá á kláðann undan bitinu.

Helst er mælt með sterakreminu Mildison auk þess sem kláðastillandi krem frá Gamla apótekinu þykir slá á mestu óþægindin. Einnig er þekkt að sumir beri í örvæntingu tannkrem á útbrotin en þar mun um gamalt húsráð vera að ræða.

„Þetta dýr er komið til að vera,“ segir Guðmundur Óli Scheving meindýraeyðir um lúsmýið. „Fólk hefur leitað rosalega mikið til mín út af þessu í sumar,“ segir hann og bætir við að aukningin sé mikil milli ára.

Reykur og net

„Hún er komin í Hafnarfjörð og Grafarvog og er auðvitað í Mosfellsbæ. Í Skorradal, Reykholt, uppsveitir Árnessýslu, Flúðir og Laugarvatn,“ segir Guðmundur Óli og bætir við að mýið hafi sig mest frammi í logni. „Ef það er sæmilegur andvari þá er hún ekkert að herja á fólk að ráði en annars er hún kominn inn um gluggana og í fólkið.“

Guðmundur Óli segir lúsmýið ekki þola reyk og að Bandaríkjamenn hafi löngum notað sérstök reykelsi til þess að bæla því frá. Þetta flýr alveg á 1000 kílómetra hraða frá öllum reyk,“ segir Guðmundur Óli sem selur slík reykelsi í verslun sinni, Ráðtak, en mælir helst með þéttriðnu neti í glugga.

„Ég á allt til gegn þessu. Ég var með venjulegt flugnanet en eftir að fólk benti mér á að lúsmýið færi í gegnum það pantaði ég þéttara net sem hún kemst ekki í gegnum. Fólk setur þetta í opnanlegu fögin svo það heti haft gluggana opna. Fólk verður bara að gæta þess að byrja á því að setja netið upp áður en gluggarnir eru opnaðir annars er hún strax komin inn.“

Ilmolíur ýmiskonar, sérstaklega með lavender, hafa í mörgum tilfellum gefið góða raun og þegar fólk skiptist á ráðum um lúsmýið á Facebook kemur lavender-olía oft til tals.

„Það getur vel verið að það virki,“ segir Guðmundur Óli. „Ég bara þekki það ekki en flugan smýgur undir ermarnar og í hársvörðinn. Það er bölvað að fá þetta inn til sín. Ég á líka efni svipað því sem fólk notar erlendis gegn moskító-flugum og hægt er að spreyja eða bera á sig.“

Öfgar í eitri virka best

Steinar Smári Guðbergsson, hjá Meindýraeyði Íslands, réðist fyrst gegn lúsmýinu í Grafarvogi 2013 og vissi þá ekkert við hvað hann var að eiga fyrr en „glögg húsmóðir í Grafarvogi“ benti honum á að sennilega væri lúsmý á ferðinni.

 „Ég hef aldrei verið bitinn en hef verið að eiga við kvikindið í mörg ár. Þetta gengur laust allt sumarið en minnkar eftir miðjan ágúst,“ segir Steinar Smári.

„Þetta hverfur ekki fyrr en í október en það ber miklu minna á þessu þegar fer að hausta. Þá er ég hættur að fá hringingar út af þessu enda ákveður fólk oft að harka þetta af sér þegar langt er liðið á sumarið.“

„Þetta varð fyrst blaðamatur 2015 en ég var byrjaður að eiga við þetta 2013. Þá fékk ég tvö tilfelli Í Mosfellsbæ og Grafarvoginum. Svo fór þetta að aukast 2014 og sprengingin varð svo 2015,“ segir Steinar Smári sem mælir helst með „eiturherferðum“ gegn mýinu.

„Það eru til alls konar húsráð sem ég er ekkert að eltast við. Ég hef verið að eitra húsin vel að utan, eins og gert er við könguló, nema að þegar ég er að eiga við lúsmýið tek ég þetta miklu öfgafyllra en köngulóareitrun.

Ég veit nokkurn vegin hvar þær fela sig yfir daginn en þær þola illa dagsbirtu og sólarljós og halda sig á skuggsælum stöðum.“ Og á þá staðið úðar Steinar Smári eitrinu hressilega.

„Ég úða húsin rosalega vel að utan svo þarf líka að eitra aðeins inni hjá fólki. Sérstaklega í opnanleg fög í gluggum og aðeins upp á rúðurnar. Ég læt fólk fá efni sem það setur sjálft í gluggana.“

Ástandið var verra í fyrra

Steinar Smári segist ekki vita betur en eiturherferðir hans virki vel. „Fólk hefur látið vel af þessu. Að minnsta kosti þegar ég geri þetta og ég hef komið ár eftir ár til sama fólksins þannig að einhverjir eru ánægðir.“

Þótt lúsmýið hafi gert mörgum skráveifur í sumar segir Steinar Smári minna hafa verið um kvikindið en í til dæmis fyrra. „Í svona skítaveðri, roki og rigningu, er vissulega minna um þetta.“

Steinar Smári segist þó hafa haft nóg að gera í baráttunni við lúsmýið í ár og hann hafi farið í eiturherferðir víða. „Þetta hefur skotið sér niður í Reykjaskógi, Brekkuskógi, Borgarfirðinum og Hvalfirðinum. Við Meðalfellsvatn í  Kjósinni, í Grafarvogi og víðs vegar annars staðar í Reykjavík. Sérstaklega í Suðurhlíðum og gömlum, grónum hverfum. Í Hafnarfirði, Vogum á Vatnsleysuströnd og Hveragerði. Þetta er að dreifa úr sér eins og sé að sækja í sig veðrið og hættir því ekkert.“