Í kjölfar verðhækkana á matvöru hefur sala á ódýrari vörumerkjum og tilboðsvörum aukist í verslunum Krónunnar, Bónuss og Samkaupa. Vörur frá vörumerkjum líkt og X-tra, Coop, Änglamark, Euroshopper og First Price, ásamt vörum sem seldar eru og framleiddar undir merkjum verslananna, seljast nú í auknum mæli.

Stefán Ragnar Guðjónsson, framkvæmdastjóri innkaupasviðs Samkaupa, segir sölu á ódýrari vörumerkjum hafa aukist jafnt og þétt síðan í vor. „Þau vörumerki sem eru í okkar eigu hafa vaxið mest og höfum við verið að auka pantanir töluvert milli vikna,“ segir hann.

„Sama sjáum við í vikutilboðum hjá okkur, vörur á tilboðum seljast í talsvert meira magni en á sama tíma í fyrra. Fólk fylgist greinilega mjög vel með þeim tilboðum sem við auglýsum,“ bætir Stefán við.

„Það er gríðarleg aukning í sölu á þessum vörum, bæði Bónusmerktum og svo Euroshopper-vörumerkinu, sem er klárlega ódýrasti valkosturinn okkar í þeim flokkum sem þær bjóðast,“ segir Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri hjá Bónus.

Bjarni Friðrik Jóhannesson, forstöðumaður innkaupa og vöruflokkastýringar hjá Krónunni, segir umtalsverða aukningu í sölu á stýrðum vörumerkjum síðustu mánuði. Það eru vörumerki sem sérstaklega eru flutt inn eða framleidd fyrir verslunina. „Margir neytendur kjósa að spara í innkaupum um þessar mundir með því að flytja sig frá alþjóðlegum vörumerkjum yfir í stýrð vörumerki,“ segir hann og bætir við að gæðin séu almennt góð þrátt fyrir að vörurnar séu ódýrari.

„Sama þróun er að gerast í löndum í kringum okkur, til dæmis í Danmörku,“ segir Bjarni.