Íslensk stjórnvöld munu bjóða umframbirgðir, sem samið hefur verið um, af bóluefnum Astra­Zeneca, Moderna og Janssen til annarra ríkja sem þurfa á þeim að halda. Þetta segir Kamilla Sigríður Jósefsdóttir, staðgengill sóttvarnalæknis.

„Við áttum stóra samninga við Janssen og AstraZeneca, sem við ætlum sem sagt að bjóða öðrum,“ segir Kamilla. Hún segir samninginn við Astra ekki hafa verið mjög stóran en þó sé enn svolítið eftir af honum. Janssen og AstraZeneca fari til Covax, samstarfsverkefnis ríkja um flutning bóluefna til landa sem hafa ekki sjálf getað gert samninga um bóluefni. Umframbirgðir af Moderna fari sennilega til annarra landa í Evrópu, sem ekki hafa náð samningum um bóluefni en njóta heldur ekki Covax-verkefnisins.

„Við höfum ekki nógu góð gögn varðandi Janssen og Delta sérstaklega, en ef við horfum á það eða ekkert bóluefni, þá teljum við að það sé nú örugglega betra að fá Janssen heldur en ekkert bóluefni,“ segir Kamilla aðspurð um þá ákvörðun að senda öðrum þjóðum bóluefni sem við viljum ekki nota sjálf.

„Við erum ekki í þeirri stöðu að þurfa að horfa á Janssen eða ekkert, þannig að við gerum það sem við getum til þess að hafa þau bóluefni sem við teljum að nýtist okkur best og veiti sem besta vörn,“ segir hún.

Þær bóluefnabirgðir sem boðnar verða öðrum ríkjum eru þær sem samið hefur verið um en hafa enn ekki verið afhentar hingað til lands.

Stjórnvöld eiga hins vegar nokkurt magn Janssen-bóluefna á lager sem ekki er hægt að senda annað.

„Það er ekki hægt að senda þá skammta annað en þeir munu sennilega nýtast okkur til þess að bólusetja einstaklinga sem við getum ekki tryggt að verði hér nógu lengi til þess að fá seinni skammt. Við munum ekki farga því, eða ég vona að það komi ekki til þess að við þurfum að farga. Það er með góðan fyrningartíma þannig að svo lengi sem við geymum það við viðeigandi aðstæður þá mun það nýtast okkur fram á næsta ár,“ segir Kamilla.

Á upplýsingafundi almannavarna í gær var Kamilla spurð um afstöðu íslenskra stjórnvalda til beiðni Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar til ríkja um að þau bíði með örvunarskammta til að tryggja bóluefni fyrir þau ríki sem styttra eru komin með bólusetningar.

„Þetta er klárlega mjög réttmætt og virðingarvert sjónarmið, við þurfum hins vegar líka að horfa á að ef að við höfum tól í höndunum til að verja okkar íbúa þá er það fyrsta skylda okkar,“ sagði Kamilla. Þegar væri búið að ákveða að gefa bóluefni, sem gerðir hafi verið samningar um, í samstarf um bóluefni til annarra landa þar sem það nýtist betur. „Við munum samt sem áður setja íslensku þjóðina og okkar innviði í forgang því við bara getum ekki réttlætt annað,“ sagði Kamilla á upplýsingafundinum.