Oddur Eysteinn Friðriksson, betur þekktur sem Odee, kveðst ekki þurfa að svara fyrir meintan stuld sinn á höfundarverki annarra listamanna í hönnun fyrir Opal-umbúðir.
„Þetta er náttúrlega bara þekkt listform og ég hef oft áður verið að svara fyrir eitthvað svona, ég er bara hættur að nenna því,“ segir Oddur í samtali við Fréttablaðið.
Hann bendir auk þess á að ef höfundavarið vörumerki sé sett í annað samhengi sé um nýtt sjálfstætt listaverk að ræða. „Okkar þekktustu listamenn, Erró til dæmis, hefur verið að stunda klippimyndalist frá upphafi.
Greint var frá því á Facebook að einn þeirra listamanna sem Odee er sagður hafa stolið frá hyggist kæra málið og láta setja lögbann á verkið á Opal-umbúðunum.
„Við búum náttúrlega bara í réttarríki og fólk getur bara sótt rétt sinn ef það vill. Ég bara geri engar athugasemdir við það,“ segir Oddur.
Hann bætir því við að hann sé ekki stressaður yfir því að fá á sig kæru og hafi ekki heyrt neitt frá hinum erlendu listamönnum enn sem komið er.
Kemur þetta eitthvað illa upp á samstarf þitt við Nóa Síríus?
„Ekki svo ég viti, nei. Ég hef ekkert heyrt af því, þetta hefur ekkert verið í umræðunni.“