Það hefur lítið gerst í Kópavogi á síðustu árum,  Það er skortur á samráði, það vantar að byggja fjölbreyttari íbúðir og leikskólamálin eru í ólestir, segir Sigurbjörg Erla Egilsdóttir oddviti Pírata í Kópavogi.  Hún er gestur á Fréttavaktinni á Hringbraut ásamt oddvitum annarra framboða í Kópavogi í opinni dagskrá í kvöld klukkan 19:57.

Ólafur Þór Gunnarsson oddviti Vinstri grænna tekur í sama streng.  Það sé stöðnun í sveitarfélaginu eftir meira en  30 ára meirihluta Sjálfstæðismanna í bænum.  Það þurfi að gefa öðrum tækifæri.  Það vanti samráð og samtal við íbúa og fólk eigi ekki að upplifa bæjarstjórnina eins og eitthvað valdboð.

Helga Jónsdóttir er oddviti Vina Kópavogs sem er nýtt framboð. Hún telur að  núverandi bæjarstjórn hafi staðið sig illa og skilji  við bæinn í sárum.  Það séu átök út um allt og alls konar vanhugsaðar framkvæmdir og enginn skilji hvernig eigi að leysa þau mál sem koma upp þeim samfara.

Í fyrsta hluta þáttarins í kvöld, sem er þrískiptur, mætast oddvitar Framsóknar, Miðflokks og Viðreisnar í Kópavogi.  Í öðrum hluta oddvitar Pírata, Vinstri grænna og Vina Kópavogs eins og áður segir og í þriðja hlutanum oddvitar Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks. 

Umsjónarmenn eru Sigmundur Ernir Rúnarsson og Elín Hirst. 

Annað kvöld verður oddvitaslagur á milli efstu manna á framboðslistum í Akureyrarbæ.