Strandabyggð mun kynna niðurstöður valkostagreiningar um sameiningu á íbúafundi þriðjudaginn 5. október næstkomandi. Verður þar farið yfir kosti og galla á tillögum að sameiningu við nágrannasveitarfélögin, bæði á Vestfjörðum, í Húnaþingi vestra og Dalabyggð.

Jón Gísli Jónsson, oddviti Strandabyggðar, segir ýmsa valkosti í boði en stór sameining á Vestfjörðum, eins og hefur oft verið nefnd, sé ekki ofarlega á blaði.

„Möguleikar fyrir lítil sveitarfélög eru oft litlir og afkoman ekki sérstaklega góð,“ segir Jón. „Við höfum áhuga á að styrkja samfélagið hérna og sjá hvað við fáum út úr þessu.“

Valkostagreiningin er fyrsta skrefið í átt að sameiningu. En eftir hana tekur við kynning, óformlegar og svo formlegar sameiningarviðræður við önnur sveitarfélög, stundum könnun og svo íbúakosning.

Í Strandabyggð búa rúmlega 400 íbúar og á Ströndum eru tvö önnur smá sveitarfélög, Árneshreppur og Kaldrananeshreppur. Vestan við eru svo hinir fámennu Reykhólahreppur og Súðavíkurhreppur en fjölmennari eru Ísafjarðarbær og Vesturbyggð.

„Við tölum örugglega við önnur sveitarfélög í vetur. Það er klárt mál,“ segir Jón Gísli.