Tillaga uppstillingarnefndar Miðflokksins um framboðslista flokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður var felld á félagsfundi hans á fimmtudag. Því hefur stjórn flokksins ákveðið að boða til oddvitakjörs í kjördæminu þar sem Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokks, og Fjóla Hrund Björnsdóttir, framkvæmdastjóri flokksins, takast á um oddvitasætið.

Á föstudaginn var greint frá því að Þorsteinn hefði ekki samþykkt tillögur nefndarinnar sem fólu í sér að honum yrði ekki stillt upp sem oddvita. Fór svo að tillagan var felld á félagsfundinum og þarf flokkurinn því að raða á framboðslistann svo hann standi. Því fer fram oddvitakjör 23. og 24. júlí þar sem flokksmönnum greiða atkvæði um oddvita í ráðgefandi kosningu.

„Mikill hugur er í Miðflokknum um að jafna hlut kynjanna og aldursdreifingu á framboðslistum. Mikið framboð hefur verið af hæfum konum og körlum og er það fagnaðarefni,“ segir í tilkynningu á vef flokksins.