„Ég er nokkuð undrandi á þessum niðurstöðum vegna þess að mín pólitík og pólitík Miðflokksins hefur gengið mjög vel. Þannig að ég tel mig og flokkinn eiga mikið inni,“ segir Vigdís Hauksdóttir, oddviti Miðflokksins í borgarstjórn, um niðurstöður könnunar á fylgi flokka í borginni sem greint var frá í blaðinu í gær.

Samkvæmt könnuninni, sem Zenter rannsóknir gerðu fyrir Fréttablaðið, myndu flokkarnir í meirihluta borgarstjórnar bæta við sig þremur borgarfulltrúum þó að Samfylkingin tapi fylgi. Miðflokkurinn mælist með tæp fimm prósent en fékk rúm sex prósent í kosningunum.

„Við erum svolítið í víglínunni og eigum mikið dulið fylgi hjá hinum þögla kjósanda sem kannski vill ekki gefa sig upp. Við verðum oft fyrir aðkasti vegna skoðana okkar en ég hef náttúrulega beitt mér mjög hart í spillingarmálum í Reykjavík,“ segir Vigdís.

F01310718 borgarráð 09.jpg

Oddvitar Vinstri grænna og Viðreisnar eru öllu ánægðari með niðurstöður könnunarinnar en báðir flokkarnir bæta við sig fylgi frá kosningum.

„Þetta eru auðvitað góðar fréttir fyrir meirihlutann. Maður er þakklátur fyrir allan þennan stuðning, en ég held líka að borgarbúar séu ánægðir með það sem við erum að gera,“ segir Líf Magneudóttir, oddviti Vinstri grænna.

Það sé mjög ánægjulegt að sjá svo góða niðurstöðu þrátt fyrir þann harða og óvægna áróður sem rekinn hafi verið gegn meirihlutanum. Borgarbúar sjái í gegnum borgarfulltrúa sem reyni að slá ryki í augu fólks.

„Maður fær bara þessi fjögur ár til að sýna sig og sanna. Ég held að við séum að uppskera svolítið af okkar verkum í þessari könnun. Þessi pólitíski stormur um að hér sé allt á heljarþröm virðist bara vera stormur í vatnsglasi,“ segir Líf.

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar, segir að meirihlutinn líti á þessa könnun sem hvatningu til að halda áfram að skipuleggja græna borg.

„Það var bara mjög gleðilegt að vakna við sólina og þessar fréttir. Ef þetta væru einhverjar niðurstöður úr kosningum værum við með þrjá fulltrúa, en þetta er svona meira stöðutaka en eitthvað annað.“

F26310518 marshall 02.jpg

Meirihlutinn hafi haft mikið í fanginu á kjörtímabilinu varðandi borgarþróunarmál.

„Núna erum við hálfnuð með kjörtímabilið en þetta er mjög samheldinn og góður meirihluti. Hann er líka sammála um stóru málin þótt pólitíska litrófið sé augljóslega svolítið breitt,“ segir Þórdís Lóa.

Sanna Magdalena Mörtudóttir, oddviti Sósíalistaflokksins, segist nokkuð ánægð með niðurstöðurnar en flokkurinn bætir við sig frá kosningum og er nálægt því að ná inn öðrum borgarfulltrúa.

„Við viljum bara halda áfram að styrkja okkur og ná til fólks. Það er okkar markmið og þetta er brýning um að halda áfram. Það er gott að sjá að við erum eini flokkurinn í minnihlutanum sem bætir við sig samkvæmt könnuninni.“

Hún segist ekki vilja festast inni í Ráðhúsinu í engum samskiptum við borgarbúa. „Við leggjum áherslu á að vera til staðar fyrir þá sem upplifa skort og valdaleysi. Við viljum ekki vera svona hefðbundinn flokkur sem er erfitt að ná í,“ segir Sanna.

Samkvæmt könnuninni myndi Flokkur fólksins missa sinn eina fulltrúa. Kolbrún Baldursdóttir, oddviti flokksins, segist hafa fundið fyrir mikilli jákvæðni frá fólki á kjörtímabilinu.

„Kannski í ljósi þess hvernig mín tilfinning og upplifun er, kom þetta mér pínu á óvart. Fyrir mig gengur þetta út á að hlusta á fólkið. Ég hitti mikið af fólki og fæ mikið af póstum frá fólki,“ segir Kolbrún.

Hún segist vilja vera miðill frá fólkinu og inn í borgina. „Síðan mun þetta auðvitað bara fara í dóm fólksins. Ef fólki finnst ég ekki hafa verið að vinna vinnuna mína eða ná árangri verð ég bara að taka því.“