Engar formlegar viðræður eru hafnar í Reykjavík um myndun nýs meirihluta. Oddvitar flokkanna gefa lítið upp um stöðu mála.
Á sama tíma er góður gangur í viðræðum Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks í Hafnarfirði. Valdimar Víðisson, oddviti Framsóknarmanna, hefur látið hafa eftir sér að líklega muni flokkarnir senda frá sér tilkynningu nú um helgina eða í síðasta lagi á mánudag.
Oddviti Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi segir eðlilegt að flokkurinn fái bæjarstjórastólinn. Vonir standa til að meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks verði myndaður í næstu viku.
Formlegar meirihlutaviðræður í Mosfellsbæ hefjast nú um helgina á milli Framsóknarflokks, Viðreisnar, Samfylkingar og Vina Mosfellsbæjar. Framsókn mun ekki gera tilkall til bæjarstjórastólsins heldur óska þess að bæjarstjóri verði ráðinn.
Valdaskipti í Hornafirði
Í Vestmannaeyjum er meirihlutaviðræðum Eyjalistans og Fyrir Heimaey lokið. Íris Róbertsdóttir verður áfram bæjarstjóri og Páll Magnússon forseti bæjarstjórnar.
Viðræður um myndun nýs meirihluta í Hveragerði standa yfir á milli fulltrúa Framsóknarflokks og Okkar Hveragerðis. Þar hafa oddvitar lýst því yfir að forgangsmálið verði að ráða nýjan bæjarstjóra á faglegum grunni.
Valdaskipti eru í uppsiglingu í sveitarfélaginu Hornafirði eftir að Framsókn tapaði hreinum meirihluta og helmingi kjörinna fulltrúa. Kex-framboðið er í oddastöðu og getur valið á milli Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks til samstarfs.
Allt bendir til þess að Jón Björn Hákonarson, oddviti Framsóknarflokksins í Fjarðabyggð, verði áfram bæjarstjóri sveitarfélagsins. Vel horfir með að Framsóknarflokkurinn og Fjarðalistinn nái saman með endurnýjaðan meirihluta
Fulltrúi Miðflokksins á Akureyri segir viðræður fjögurra flokka um meirihlutasamstarf á góðri siglingu. Gera má ráð fyrir að meirihluti Miðflokks, Samfylkingar, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks verði myndaður fljótlega upp úr helgi.

Í Fjallabyggð standa viðræður Jafnaðarfólks og Sjálfstæðisflokks yfir. Þar stefnir í að flokkarnir myndi traustan meirihluta en saman eiga þeir fimm bæjarfulltrúa af þeim sjö sem sitja í bæjarstjórn.
Formlegar viðræður eru hafnar um meirihluta í Dalvíkurbyggð á milli K-listans og Sjálfstæðisflokks. K-listinn bauð í fyrsta skipti fram í vor og hlaut yfir fjörutíu prósent atkvæða.
Á Akranesi eiga Samfylking og Sjálfstæðisflokkur í óformlegum viðræðum um meirihlutasamstarf. Fyrri viðræður Framsóknarflokks og Samfylkingar sigldu í strand fyrir helgina eftir að samtal flokkanna varð neikvætt, að sögn oddvita Samfylkingarinnar.
Meirihlutinn í Reykjanesbæ styrkti stöðu sína í nýliðnum kosningum og útlit er fyrir að meirihluti Samfylkingar, Framsóknarflokks og Beinnar leiðar endurnýi heitin á næstu dögum.
Að síðustu eru þreifingar í gangi um myndun nýs meirihluta í Grindavík. Þar vann Miðflokkurinn stórsigur í kosningunum og þarf einungis einn fulltrúa til viðbótar til að mynda meirihluta.