„Tökum Skota okkur til fyrir­myndar í þessum efnum og sjáum til þess að tíða­vörur séu að­gengi­legar öllum sem á þurfa að halda,“ sagði Odd­ný G. Harðar­dóttir, þing­maður Sam­fylkingarinnar, á Al­þingi í dag.

Eins og Frétta­blaðið greindi frá í morgun hafa Skotar tekið af skarið og eru þeir fyrsta landið í heiminum til að bjóða upp á ó­keypis tíða­vörur.

Skoska þingið sam­þykkti til­lögu þess efnis í gær­kvöldi og verður sveitar­fé­lögum gert skylt að bjóða þeim sem á þurfa að halda ó­keypis tíðar­vörur, dömu­bindi og tíða­tappa til dæmis.

Odd­ný benti á að Moni­ca Lennon, þing­kona skoska Verka­manna­flokksins, hefði barist fyrir þessu lengi og bent á það sem kallað hefur verið tíða­fá­tækt, að fjöl­margar skoskar konur hefðu ekki efni á að verja að meðal­tali 1.500 kr. á mánuði í tíða­vörur. Sam­kvæmt könnunum hefði um fjórðungur ungs fólks átt erfitt með að verða sér úti um tíða­vörur í Skot­landi til lengri eða skemmri tíma.

Odd­ný benti á að tvær 14 ára ís­lenskar stúlkur, þær Anna María Allawawi Sonde og Saga María Sæþórs­dóttir, hafi sent efna­hags- og við­skipta­nefnd um­sögn um band­orminn svo­kallaða, sem tengist fjár­laga­frum­varpi næsta árs.

„Í um­sögninni benda þær á hversu gott að­gengi að tíða­vörum skiptir miklu máli, sér­stak­lega fyrir peninga­lítið ungt fólk; að annað­hvort sé ungu fólki mis­munað eftir efna­hag for­eldra eða sú ó­sann­gjarna krafa gerð til þeirra að eyða þeim litlu peningum sem þau eiga í nauð­syn­lega vöru, svo sem tíða­vörur. Tíða­vörur eru jafn mikil­vægar og klósett­pappír og þess vegna ætti að­gengi að þeim að vera jafn sjálf­sagt. Blæðingar gera ekki boð á undan sér og því gríðar­lega mikil­vægt að hafa tíða­vörur til staðar á salernum, ekki síst í skólum og fé­lags­mið­stöðvum þar sem ungt fólk er. Og þær leggja einnig til að skattur verði af­numinn af tíða­vörum,“ sagði Odd­ný sem hvatti Ís­lendinga til að taka Skota til fyrir­myndar.

„Og hlustum líka á þær Önnu Maríu og Sögu Maríu og á­kall þeirra um ó­keypis að­gengi að tíða­vörum.“