„Tökum Skota okkur til fyrirmyndar í þessum efnum og sjáum til þess að tíðavörur séu aðgengilegar öllum sem á þurfa að halda,“ sagði Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, á Alþingi í dag.
Eins og Fréttablaðið greindi frá í morgun hafa Skotar tekið af skarið og eru þeir fyrsta landið í heiminum til að bjóða upp á ókeypis tíðavörur.
Skoska þingið samþykkti tillögu þess efnis í gærkvöldi og verður sveitarfélögum gert skylt að bjóða þeim sem á þurfa að halda ókeypis tíðarvörur, dömubindi og tíðatappa til dæmis.
Oddný benti á að Monica Lennon, þingkona skoska Verkamannaflokksins, hefði barist fyrir þessu lengi og bent á það sem kallað hefur verið tíðafátækt, að fjölmargar skoskar konur hefðu ekki efni á að verja að meðaltali 1.500 kr. á mánuði í tíðavörur. Samkvæmt könnunum hefði um fjórðungur ungs fólks átt erfitt með að verða sér úti um tíðavörur í Skotlandi til lengri eða skemmri tíma.
Oddný benti á að tvær 14 ára íslenskar stúlkur, þær Anna María Allawawi Sonde og Saga María Sæþórsdóttir, hafi sent efnahags- og viðskiptanefnd umsögn um bandorminn svokallaða, sem tengist fjárlagafrumvarpi næsta árs.
„Í umsögninni benda þær á hversu gott aðgengi að tíðavörum skiptir miklu máli, sérstaklega fyrir peningalítið ungt fólk; að annaðhvort sé ungu fólki mismunað eftir efnahag foreldra eða sú ósanngjarna krafa gerð til þeirra að eyða þeim litlu peningum sem þau eiga í nauðsynlega vöru, svo sem tíðavörur. Tíðavörur eru jafn mikilvægar og klósettpappír og þess vegna ætti aðgengi að þeim að vera jafn sjálfsagt. Blæðingar gera ekki boð á undan sér og því gríðarlega mikilvægt að hafa tíðavörur til staðar á salernum, ekki síst í skólum og félagsmiðstöðvum þar sem ungt fólk er. Og þær leggja einnig til að skattur verði afnuminn af tíðavörum,“ sagði Oddný sem hvatti Íslendinga til að taka Skota til fyrirmyndar.
„Og hlustum líka á þær Önnu Maríu og Sögu Maríu og ákall þeirra um ókeypis aðgengi að tíðavörum.“