„Það er eigin­lega ekki hægt að segja annað en að það sé mjög flókið að gera períódu­mynd hér á Ís­landi,“ segir Drífa Freyju og Ár­manns­dóttir sem sér um leik­myndina í Svari við bréfi Helgu sem frum­sýnd er um helgina.


Drífu tókst að breyta stofunni og láta hana líta út eins og stofu hjá óðalsbónda á Ströndum.
Mynd/aðsend

Myndin segir frá Bjarna sem verður ás­fanginn af Helgu í af­skekktum firði á 5. ára­tug síðustu aldar og þurfti því að finna allt í verkið til að leik­myndin gengi upp. Það tókst svo eftir er tekið.

Drífa segir að stóra verkið hafi verið að finna húsin sem óðals­bóndinn Bjarni og ást­konan hans, Helga, sveita­konan á Ströndum, dreymir um að búa í. Þau búa hlið við hlið með sínum mökum. Þau fundu húsin á Reykja­nesi og er húsið hans Bjarna á Hvals­nesi. „Gallinn við það hús var að það var ný­búið að gera það upp þannig við breyttum því öllu. Settum lím­filmu­vegg­fóður á alla neðri hæðina og máluðum allt og byggðum allt upp á nýtt. Byggðum yfir eld­hús­inn­réttinguna og skiptum um lampa og svo­leiðis.“

Anna Karen Kristjándóttir, Þorvaldur Davíð og Björn bóndi á Melum í Árneshreppi.
Mynd/aðsend

Drífa lærði og hefur unnið mikið í Sví­þjóð og segir að munurinn á leik­muna­leigu RÚV og sænska ríkis­sjón­varpsins sé mikill. „Leik­muna­leiga sænska ríkis­sjón­varpsins er eins og safn. Allt er merkt og það er hægt að ganga í hluti frá öllum tíma­bilum. Öll menning Svía er geymd þar og það er lítið mál að gera svona períódu­mynd þar. Það er ekkert svo­leiðis á Ís­landi, meðal annars út af fjár­svelti leik­muna­leigu RÚV og þess vegna er rosa­erfitt að gera períodu­myndir á Ís­landi.“

Hún var í góðu sam­starfi við Þjóð­minja­safn og Ár­bæjar­safn og aðrar leik­muna­leigur. Þá bendir hún á að hún var ekki ein í þessu verk­efni því hennar helsta sam­starfs­fólk var Anna Karen Kristjáns­dóttir, Dögg Ár­manns­dóttir, Valdimar Harðar­son Stef­fen­sen, Davíð Geir Jónas­son, Almar S. Atla­son og
Björg Fríður Freyja.

Siggi Sigurjóns tekur við fyrirmælum frá Ásu leikstjóra.
Mynd/aðsend

„Þetta var æðis­legt verk­efni. Að þurfa að kafa svona mikið í for­tíðina var skemmti­legt því það var svo mikil heimildar­vinna sem lá að baki myndinni.

Þetta er ekki heimildar­mynd heldur lista­verk en við reyndum eins og við gátum að ná fílingnum. Þetta spannar tíma­bilið frá 1930 til okkar daga þótt megin­sagan gerist 1940-1945.
Það var rosa­lega gaman að kafa ofan í þennan heim og að vera á Ströndum.“

Hún segir að Strandir séu ein­stakur staður og fólkið ekki síðra. „Þetta er svo dá­sam­legur staður. Það var svaka­lega erfitt að keyra þangað og það þýddi lítið að gleyma hlutum ef maður var að fara þangað. Það hefði ekki gengið,“ segir hún létt.

Börn Helgu og Hallgríms í myndinni, Sigurrós Ylfa Rúnarsdóttir og Halldór Hugason.
Mynd/aðsend