Willum Þór Þórs­son, heil­brigðis­ráð­herra, til­kynnti um nýjar sam­komu­tak­markanir fyrir utan ráð­herra­bú­staðinn á Tjarnar­götu rétt í þessu. Að­gerðir munu verða ó­breyttar í tvær vikur vegna ó­vissunnar um Ó­míkron af­brigðið sem hefur greinst hjá nokkrum ein­stak­lingum hér á landi.

„Þó allt sé við­ráðan­legt í dag í þessari bylgju, en búið að vera svona lang­varandi álag á heil­brigðis­þjónustuna með hundrað plús smit á dag. Þá leggjum við til að hafa þetta ó­breytt í tvær vikur meðan við erum að safna gögnum og upp­lýsingum, sótt­varnar­yfir­völd, til að meta stöðuna. En munum og bindum vonir við að geta slakað til fyrr ef gögn benda okkur á að það sé ó­hætt,“ sagði Willum.

Að­spurður um hvers konar gögn eða vís­bendingar þyrftu að koma fram til að hægt væri að ráðast í af­léttingar sagði hann:

„Það er auð­vitað þetta nýja af­brigði, menn eru að meta það hvernig það smitar eða smitast og hvernig það virkar gagn­vart hr­að­greiningar­prófunum sem við erum að nýta til þess að halda hér við­burðum og menningu gangandi og sam­fé­laginu og eins gagn­vart bólu­setningum og svo fram­vegis.“

Hann bætti við að sam­kvæmt vísinda­mönnum væri tíma­töfin á nýja af­brigðinu um tvær vikur.

Í samræmi við minnisblað Þórólfs

Þór­ólfur Guðna­son sótt­varna­læknir skilaði inn nýju minnis­blaði til ráð­herrans síðustu helgi. Greint var frá því í gær að Þór­ólfur lagði ekki til hertar að­gerðir í minnis­blaði sínu. Heilbrigðisráðherra staðfesti að ákvörðunin um að halda óbreyttu ástandi hefði verið í fullu samræmi við minnisblað sóttvarnalæknis.

Sam­kvæmt nú­gildandi sam­komu­tak­mörkunum sem gilda til morgundagsins mega há­mark 50 manns koma saman í einu en þó er svig­rúm fyrir 500 manna við­burði ef stuðst er við hrað­próf og grímu­notkun. Veitinga- og skemmti­staðir mega hleypa fólk inn til klukkan 22 á kvöldin en verða að hafa lokað dyrum sínum klukkan 23.

Að öllu óbreyttu munu þessar samkomutakmarkanir gilda til Þorláksmessu, 23. desember. Heil­brigðis­ráð­herra í­trekaði þó að hann bindi vonir við að ríkis­stjórninni muni berast gögn sem sýna fram á að hægt sé að af­létta tak­mörkunum áður en þessar tvær vikur renna sitt skeið.

Heilbrigðisráðherra sagðist trúa því að ríkisstjórnin væri að hugsa um alla þjóðina óháð aldri.
Fréttablaðið/Eyþór Árnason

Erum að ná að halda sam­fé­laginu gangandi

Willum var spurður af blaðamanni Stöðvar 2 hvort ríkis­stjórnin væri að gleyma unga fólkinu í ljósi þess að flestir ráð­herrar séu á miðjum aldri, með ör­fáum undan­tekningum. Sagðist hann trúa því að ríkisstjórnin væri að taka til­lit til hags­muna allrar þjóðarinnar.

„Ég get auð­vitað alls ekki full­yrt þessa stað­hæfingu en ég leyfi mér nú að trúa því að við séum að hugsa um þjóðina alla óháð aldri, sannar­lega. Ég tek undir það að þetta tekur á okkur öll, þessar tak­markanir skulum við segja, bara víðs­vegar í sam­fé­laginu. En við verðum auð­vitað að horfa líka á þann árangur sem við höfum þó náð og við erum að ná að halda sam­fé­laginu þokka­lega gangandi,“ sagði hann.

Spurður um það hvort hann myndi verða gjarnari í til­slakanir heldur en for­veri sinn Svan­dís Svavars­dóttir sagði Willum.

„Það var auð­velt í upp­hafi þegar full­komin ó­vissa var hér muniði, fyrir tæpum tveimur árum. Þá var mjög auð­velt bara að grípa í kaðalinn og fylgja einum manni sem sagði þangað förum við. Síðan lærum við að vega og meta og beita vísindum og rann­sóknum og gögnum til þess að taka á­kvarðanir og þær eiga auð­vitað að vera í átt til þess að svona látum sam­fé­lagið ganga sem mest með hefð­bundnum hætti eins og við þekktum áður.“

Fréttin hefur verið uppfærð.