Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri Seltjarnarnesbæjar, segir að ekki standi til að hækka útsvar né fara í harðan niðurskurð á rekstri bæjarins.

Mikill hallarekstur hefur verið á bæjarsjóði undanfarin fimm ár og sér ekki fyrir endann á þeirri þróun.

Á fundi bæjarstjórnar í síðustu viku var lögð fram fjárhagsáætlun næsta árs og var þar gert ráð fyrir neikvæðri rekstrarniðurstöðu upp á 136 milljónir króna. Minnihluti bæjarstjórnar lagði til að útsvar yrði hækkað úr 13,70 prósentum í 14,48 prósent til að stemma stigu við ósjálfbærum rekstrinum.

Ásgerður sló þær hugmyndir út af borðinu og lét bóka að fjárhagsstaða bæjarins væri sterk og skuldir langt undir viðmiðunarmörkum.