Óbreytt rýmingarsvæði er á Seyðisfirði fram yfir áramót og hættustig almannavarna er áfram í gildi.

Sérfræðingar Veðurstofu Íslands hafa lagt mat á hættu á skriðuföllum á núgildandi rýmingarsvæði. Ekki hefur orðið vart við neinar hreyfingar á jarðvegi frá því fyrir jól og eru aðstæður metnar stöðugar eins og er, á meðan kalt er í veðri og ekki rigning. Þetta kemur fram í tilkynningu frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og lögreglustjóranum á Austurlandi.

Þá segir að aðgengi að mörgum húsanna er erfitt og ljóst að mikið hreinsunarstarf þarf að vinna áður en almenn umferð verður heimiluð um svæðið. Lögreglustjórinn á Austurlandi hefur því ákveðið að halda áfram óbreyttri rýmingu í gildi fram yfir áramót, hið minnsta.

Hlé verður á hreinsunarstarfi í bænum yfir áramótin en þau hefjast að nýju 2. janúar.