Kanadískur faðir sem ekki er bólu­settur gegn Co­vid-19 fær ekki að hitta tólf ára gamalt barn sitt þar sem það er gegn hags­munum þess. Þetta er niður­staða dómara í Quebec en faðirinn hafði farið fram á að fá aukinn heim­sóknar­tíma með barninu yfir há­tíðirnar.

Þetta er í fyrsta sinn sem for­eldri er svipt rétti til að um­gangast barn sitt vegna bólu­setningar í Kanada segir fjöl­skyldu­réttar­lög­fræðingurinn Syl­vi­e Schirm við dag­blaðið Le De­voir.

Hæsta­réttar­dómarinn Jean-Sé­bastien Vaillancourt komst að þessari niður­stöðu 23. desember.

Móðir barnsins er með for­ræði og hefur faðirinn haft rétt til að hafa það hjá sér aðra hverja helgi og yfir viku­tíma yfir há­tíðirnar sam­kvæmt sam­komu­lagi for­eldranna.

Óttaðist um heilsu barnsins

Faðirinn fór fram á breytingar á sam­komu­laginu um miðjan desember en móðirin var því and­snúin. Að hann var ekki bólu­settur „var henni mikið á­hyggju­efni“ segir lög­maður hennar. Barnið er sjálft tví­bólu­sett.

„Vana­lega væri það bestu hags­munir barnsins að fá að um­gangast föður sinn en það eru ekki bestu hags­munir þess að fá að hitta hann ef hann er ekki bólu­settur og er and­snúinn heil­brigðis­ráð­stöfunum þegar horft er til far­aldurs­fræði­legra sjónar­miða“, sagði dómarinn.

Faðirinn hefur lýst því yfir að hann hafi „efa­semdir um bólu­setningar“ en heitti því að virða sótt­varna­reglur og að fara ekki út fyrir hússins dyr á meðan barnið væri hjá honum. Hann gat hins vegar engin rök fært fyrir efa­semdum sínum um bólu­setningu.