Bæjarstjórn Fjallabyggðar hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem hún segir að ástandið sem skapaðist eftir óveðrið í vikunni vera „algjörlega óboðlegar í nútímasamfélagi,“ og gerir skýlausa kröfu um að gripið verði til úrbóta. Sveitarfélagið hafi verið algjörlega einangrað og ekki hafi verið hægt að sækja hjálp til nærliggjandi sveitarfélaga, Mikil mildi sé að ekkert alvarlegt hafi komið upp á. Strax í upphafi rafmagnsleysis hafi orðið erfitt að nálgast eldsneyti sem hafi ollið erfiðleikum í björgunarstarfi.

Heilsu og verðmætum stefnt í hættu

Í yfirlýsingunni segir að rafmagns- og hitaveituleysi, auk vandamála með fjarskiptakerfi og útvarpskerfi hafi valdið miklu óöryggi. Mikið tjón hafi einnig orðið vegna langvarandi rafmagnsleysis og veðurofsans. „Ofan á þá eyðileggingu sem óveðrið orsakaði var heilsu og eignum einstaklinga sem og verðmætum fyrirtækja stefnt í hættu.“

Bæjarstjórnin bendir á að dísel-rafstöðvar sem hafi áður verið til staðar til sem varaaflsstöðvar hafi verið aflagðar vegna öryggis sem átti að koma með hringtengingu raforku. Sú tenging hafi augljóslega brugðist í veðrinu. „Auk þess er óeðlilegt að varaaflsstöðvar fyrir fjarskiptakerfi viðbragðsaðila séu ekki fyrir hendi.“

Þakka þeim sem komu til aðstoðar

Viðbragðsaðilum og öðrum sem sinntu björgunarstörfum er þakkað fyrir. „Þessir aðilar hafa komið fólki til aðstoðar, komið á rafmagni og hita í Fjallabyggð ásamt því að tryggja fjarskiptasamband og unnið þrekvirki fyrir íbúa Fjallabyggðar og færir sveitarfélagið þeim bestu þakkir.“