Viðar Þorsteinsson, framkvæmdarstjóri Eflingar, segir atvinnurekendur beita öllum brögðum til að fá starfsmenn til að mæta til vinnu í verkfallinu.

„Óbilgirnin er svakaleg og það er öllum brögðum beitt,“ sagði Viðar í ræðu sinni í verkfallsmiðstöð rútubílstjóra úr Eflingu í Vinabæ.

Hann sagði félagsmenn beitta þrýstingi og hótunum og alla lagakróka nýtta. Mikilvægt sé að verkfallsvarslan sé sýnileg til að sýna samstöðu. Efling og VR séu til staðar til að styðja starfsmenn, ekki hræða þá. 

Verkfall Eflingar og VR hófst á miðnætti. Um tvö þúsund hótelstarfsmanna og rútubílstjóra hafa lagt niður störf. Verkfallsverðir Eflingar og VR fara á milli hótela og bifreiðastöðva í dag til að fylgjast með gangi mála og hugsanlegum verkfallsbrotum. Þá hafa nokkrir verkfallsverðir orðið varir við brot og hafa meðal annars þurft að hafa afskipti af rútubílstjórum á BSÍ.

Viðar Þorsteinsson hélt ræðu fyrir rútubílstjóra í Vinabæ í dag þar sem hann ítrekaði mikilvægi samstöðu í verkfallinu. Í samtali við Fréttablaðið í morgun sagði Viðar aðgerðirnar hafa áhrif og fylgst væri með jaðartilfellum

Verkfallið á að standa í sólarhring og lýkur því á miðnætti í kvöld.