Öryrkjabandalag Íslands, ÖBÍ, vísar alfarið á bug orðum Garðars Sverrissonar, fyrrverandi stjórnarmanni í Brynju- hússjóði Öryrkjabandalagsins.

Garðar sagði í samtali við Morgunblaðiðí dag að alvarleg spilling væri í sjóðnum og sakaði hann Þuríði Hörpu Sig­urðardótt­ur, formann ÖBÍ, um bolabrögð. Sagði hann í bréfi til aðildarfélaga ÖBÍ að Þuríður Harpa hafi ætlað að „fyrirbyggja að heilsteyptasta fólkið yrði kjörið til að gæta hagsmuna Brynju gagnvart þeim sem nú vilja gera sér Hátúnslóðina að féþúfu og fjármagna skúffufyrirtæki huldumanna sem víða vilja hagnast á nýbyggingum“.

Innistæðulausar ásakanir

Í yfirlýsingu frá ÖBÍ segir að félagið harmi að Garðar hafi ákveðið að fara fram með rakalausar og algerlega innistæðulausar ásakanir um sjóðinn og stjórn hans, sem og nafngreinda einstaklinga í stjórn ÖBÍ.

Garðari hafi verið vikið úr stjórn Brynju, með einróma ákvörðun stjórnar ÖBÍ, sem er skipuð 19 einstaklingum, sökum þess að hann hafði brotið gróflega gegn skyldum sínum og brugðist trausti ÖBÍ. „Stjórn Brynju- hússjóðs Öryrkjabandalagsins er í dag skipuð mjög hæfu fólki og er óumdeild. Rekstur sjóðsins er traustur og í góðum höndum,“ segir í yfirlýsingunni.