„Þessi úrskurður staðfestir það sem við vissum: Lögin um aðgengilega heilbrigðisþjónustu eru komin til að vera.“

Þetta sagði Barack Obama, fyrrum Bandaríkjaforseti, um úrskurð sem hæstiréttur Bandaríkjanna felldi í gær þar sem því var hafnað að heilbrigðislögin sem kennd eru við Obamacare brytu gegn stjórnarskrá landsins. Lögin, sem Obama undirritaði árið 2010, hafa lengi verið bitbein bandarískra íhaldsmanna, sem hafa nánast frá upphafi reynt að fá þeim hnekkt. Þetta var í þriðja sinn sem hæstirétturinn felldi úrskurð í tengslum við lögin og úr þessu þykir ólíklegt að lögunum verði nokkurn tímann hnekkt fyrir dómstólum.

Álitaefnið í málinu snerist um svokallað einstaklingsumboð heilbrigðislaganna, sem fól í sér refsiskatt á fólk án heilsutrygginga. Einstaklingsumboðið var í reynd afnumið með skattalöggjöf Donalds Trump árið 2017, sem mælti fyrir um að heilsutryggingar þyrftu ekki að vera hærri en núll dollarar. Gagnrýnendur Obamacare héldu því fram að án einstaklingsumboðsins brytu heilbrigðislögin í heild sinni gegn stjórnarskránni þar sem nú væri um að ræða ólögmæta skattlagningu af hálfu Bandaríkjaþings. Dómari í Texas féllst á þessar röksemdir í desember 2018 en stjórn Kaliforníu áfrýjaði dómnum til hæstaréttarins og lögin héldu því gildi sínu á meðan málið var til meðferðar.

Í úrskurði hæstaréttarins kusu fimm af sjö dómurum að vísa málinu frá dómi á þeim grundvelli að kærendurnir í Texas hefðu ekki haft lögvarða hagsmuni af úrlausn þess. Ekki var því tekin efnisleg afstaða til álitaefnisins en engu að síður þykir dómurinn sýna að núverandi hæstiréttur hafi ekki áhuga á að hnekkja eldri dómafordæmum um lögin. Athygli vekur að tveir dómarar sem Donald Trump skipaði, þau Brett Kavanaugh og Amy Coney Barrett, kusu með því að vísa málinu frá.