Barack Obama, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, segir ákvörðun arftaka síns, Donalds Trump, um að draga til baka kjarnorkusamning Bandaríkjanna við Íran vera mistök sem einkenndust af vanhugsun. Trump greindi frá því fyrr í dag að Bandaríkin hygðust segja upp sinnu hlið samningsins, sem Obama undirritaði fyrir hönd Bandaríkjanna árið 2015. Samningurinn kveður á um Íranar dragi úr framleiðslu kjarnorku en gegn því felldu Bandaríkjamenn og önnur ríki niður refsiaðgerðir gegn þeim.

Hassan Rouhani, forseti Írans, sagði í ræðu sinni eftir að ákvörðunin var kynnt, að um væri að ræða sálfræðihernað af hálfu Trump og bandarískra stjórnvalda. Bregðast þyrfti við ákvörðuninni og sagðist hann hafa í huga að stjórnvöld í Íran myndu nú ræða við Kínverja og Rússa um hver næstu skref yrðu. Ákvörðunin væri enn fremur sönnun þess að Bandaríkin gætu ekki staðið við samninga.

António Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, tjáði sig einnig í kjölfar ákvörðunarinnar og beindi hann þeim tilmælum til annarra ríkja sem undirrituðu samninginn árið 2015 að standa við hann.

Obama sagði samkomulagið hafa virkað vel hingað til. Ákvörðun Trump einkenndist því af vanhugsun og sagði hann mistökin vera alvarleg. Búist er við því að Hvíta húsið undirbúi nú innleiðingu refsiaðgerða fyrst búið er að segja samkomulaginu upp. Greint er frá því á vef BBC að John Bolton, þjóðaröryggisráðgjafi Trump hafi sagt að evrópsk fyrirtæki hefðu sex mánuði til þess að láta af viðskiptum sínum við Írana, ella mættu þeir refsiaðgerðum af hálfu bandarískra stjórnvalda.