Portúgalski vatnahundurinn Bo, sem hefur fylgt Obama fjölskyldunni frá því að þau fluttu inn í Hvíta húsið árið 2008 og í gegnum forsetatíð Baracks Obama fyrrverandi Bandaríkjaforseta, lést í gær úr krabbameini.

Fyrrverandi forsetahjónin greina frá þessu á samfélagsmiðlum.

„Í dag missti fjölskyldan sannan vin og traustan félaga. Stöðug og blíð nærvera Bo hafði mikil áhrif á líf okkar. Hann var ánægður að sjá okkur á góðum dögum jafnt sem slæmum,“ skrifar Barack Obama á Facebook.

Michelle Obama minnist Bo og segir það hafa verið erfitt að kveðja góðan vin.

„Við sem fjölskylda munum sakna Bo en við erum líka þakklát fyrir það að hann hafi átt gott líf þar sem hann fékk mikið af knúsum, boltaleikjum og gat notið þess að kúra á sófanum á kvöldin,“ skrifar fyrrverandi forsetafrúin.