Heilbrigðisráðuneytið mun ráðstafa 1,1 milljarð króna á næstu tveimur árum til að lækka greiðsluþátttöku sjúkratryggða. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra tilkynnti um áformin á blaðamannafundi í ráðuneytinu í dag.

Flestar greiðslur úr vasa sjúklinga fara í lyfjakostnað, tannviðgerðir og læknisþjónustu á göngudeildum og utan sjúkrahúsa. Til stendur að lækka greiðsluþátttöku almennings niður í 15 prósent eða lægra. Rannsóknir hafa sýnt fram á fólk í þróuðum ríkjum neiti sér um nauðsynlega þjónustu þegar greiðsluþátttaka almennings fer mikið ofar en 15 prósent. Nauðsynlegt er að breyta þessu að sögn Svandísar.

Á Íslandi hefur greiðsluþátttaka almennings numið í kringum 16 prósent af heildarkostnaði eða hærra og er þá stór hluti lágtekjufólks að neita sér um þjónustu. „Það sé óásættanlegt í ríki sem kallar sig vel velferðarríki,“ segir Svandís og bendir á að það sé nánast óþekkt að fólk neiti sér um heilbrigðisþjónustu í Danmörku.

Framlög ríkisins til heilsugæslu nema um 135 milljónum króna á næsta ári. Stefnt er að því að fella komugjöld á heilsugæslu niður að fullu árið 2021. Verður þetta gert í skrefum en þann 1. janúar næstkomandi verða almenn komugjöld á heilsugæslu lækkuð úr 1200 krónum í 700 krónur. Það á við um komur fólks á dagvinnutíma á heilsgæslustöð þar sem viðkomandi er skráður.

Niðurgreiðslur sjúkratrygginga fyrir tannlæknisþjónustu, hjálpartæki og lyf verða auknar. Ný reglugerð um ferðakostnað sjúkratryggða og aðstandenda þeirra tekur gildi næstkomandi janúar. Þá verður komið til móts við þá sem þurfa að ferðast reglulega vegna blóðskilunar. Einnig verður greitt fargjald fylgdarmanns konu í fæðingu.

„Fólk hefur verið óánægt með ferðakostnað. Þetta er gott skref fyrir þá sem þurfa það standa í miklum kostnaði við ferðalög,“ sagði María Heimisdóttir, forstjóri Sjúkratrygginga, sem sat fundinn í dag.