„Við sem höfum smitast af Co­vid-19 og erum enn­þá að takast á við eftir­köst sjúk­dómsins köllum eftir skilningi stjórn­valda og sam­hæfingu að­gerða líkt og verið er að gera í ná­granna­löndum okkar,“ segir í yfir­lýsingu sem birt er í Face­book hópnum Við fengum Co­vid-19.

Í hópnum eru nærri níu hundruð manns og stór hluti þeirra glímir enn við lang­varandi ein­kenni Co­vid-19 sjúk­dómsins. Eftir­köst sem borið hefur hvað mest á eru meðal annars orku­leysi, skortur á bragð- og lyktar­­skyni, höfuð­­verkir, mæði, ein­beitingar­skortur og vöðva­­verkir. Ekki liggur fyrir hversu margir hér á landi þjást af téðum ein­kennum en talið er að fjöldinn skipti hundruðum.

Leitast eftir skilningi

„Að þurfa að ráfa um heil­brigðis­kerfið í leit að skilning, svörum og að­stoð er ekki á­sættan­legt hvað þá þar sem þekkingin á okkar sjúk­dóm er af skornum skammti. Við köllum eftir leið­beiningum og sam­hæfðum úr­ræðum,“ segir í til­kynningunni.

Innan hópsins er vonast eftir við­brögðum frá land­lækni sem mun sitja fyrir svörum í Kast­ljósi í kvöld. Mikil­vægt sé að vekja at­hygli á því að fólk sé að upp­lifa ein­kenni sjúk­dómsins núna og biðin eftir niður­stöðum rann­sókna hjálpi lítið. „Vandinn er til staðar núna.“

Bið­listi í endur­hæfingu

Á þriðja tug þeirra sem kljást við lang­varandi ein­kenni Co­vid bíða nú eftir plássi á Reykja­lundi. Margra mánaða bið er eftir endur­hæfingu hjá stofnuninni og má gera ráð fyrir að biðin lengist enn frekar eftir að smit greindist meðal starfs­manna í gær.

„Þessi hópur þarfnast með­ferðar­úr­ræða strax ekki eftir margra mánaða bið. Ef hægt er að byggja upp Co­vid deild á ör­fáum dögum og hefja og jafn­vel klára rann­sóknir þá hlýtur að vera hægt að sjá hag í að hefja sem allra fyrst mark­vissa endur­hæfingu svo þessi hópur nái sem best mögu­legri heilsu á ný,“ skrifar einn með­limur hópsins undir yfir­lýsinguna.

Margir hafi verið frá vinnu svo vikum skipti og hafa ekki þrótt til að sinna sínu dag­lega lífi. Það sem þurfi eru skýrar leið­beiningar og skil­virkar að­gerðir.