Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar útilokar ekki verkfallsaðgerðir gangi ekki vel á fundi samninganefndar Eflingar með Samtökum atvinnulífsins (SA) í dag. Samninganefndirnar funda klukkan 13 í dag.
Í viðtali við Morgunútvarpið á Rás 2 í morgun greindi Sólveig Anna frá því að samninganefnd félagsins hafi fundað til að undirbúa sig fyrir fund dagsins. Hún var harðorð og gagnrýndi það að þvinga eigi félagið til að ganga að sömu samningum og VR og SGS þrátt fyrir að þau séu stærsta stéttarfélagið á vinnumarkaði.
„Þrátt fyrir það að Efling sé stærsta félagið þá á að svipta okkur sjálfstæðum samningsrétt og þvinga okkur til að taka við samningi sem aðrir menn skrifuðu og sömdu um,“ sagði Sólveig Anna og sagði þetta aðför að félaginu og samninganefndinni.
Hún sagðist vonast til þess að eitthvað breyttist á fundinum í dag en tók þó fram að hún væri ekki vongóð.
Spurð hvernig SA tók í tilboð og kröfugerð þeirra í nóvember sagðist hún engin viðbrögð hafa fengið og segir að aftur hafi svo það skilað engum árangri að senda tilboð í desember. Þau hafi engin málefnaleg tilboð fengið til baka frá SA.
„Það er óásættanlegt að láta aðra semja fyrir okkur,“ sagði Sólveig Anna og að það væri óásættanlegt að hlýða skipunum SA. Hún sagði SA ekki sýna fagleg vinnubrögð eða samningsvilja og að viðræðurnar væru hálfgerður skrípaleikur.
Sólveig Anna sagði samningsvilja þeirra mikinn en vildi ekki tjá sig um það hvort það stefndi í verkfall. Það yrði að fara eftir fundinum seinna í dag.
„Vinnuaflið hefur þetta vopn,“ sagði Sólveig Anna og að ef það fari þá leið sé það algerlega á ábyrgð SA því þau hafi sýnt tillitsleysi og hroka og „misst jarðtengingu“.
Enginn sigur fyrir verkalýðinn
Í viðtalinu við morgunútvarpið fór Sólveig Anna einnig yfir niðurstöðu Félagsdóms sem komst að því að uppsögn Gabríels Benjamin hefði ekki verið réttmæt.
Spurð hvort dómurinn væri sigur fyrir verkalýðinn eins og Gabríel orðaði það í stöðuuppfærslu í gær sagðist Sólveig Anna ekki sammála því.
Hún gagnrýndi mjög málflutning Gabríels í fjölmiðlum og dóm Félagsdóms sem henni þykir fara gegn dómaframkvæmd. Gabríel hafi ekki verið sagt upp vegna þess að hann var trúnaðarmaður, heldur var honum sagt upp sem hluta af hópuppsögn.
Spurð hvort hún hefði farið öðruvísi að skipulagsbreytingunum sagði Sólveig Anna að hún myndi ekki gera það. Þær hefðu verið vel framkvæmdar og hún myndi ekki breyta neinu.
„Við myndum ekki gera neitt öðruvísi en við gerðum,“ sagði Sólveig Anna.