Sól­veig Anna Jóns­dóttir for­maður Eflingar úti­lokar ekki verk­falls­að­gerðir gangi ekki vel á fundi samninga­nefndar Eflingar með Sam­tökum at­vinnu­lífsins (SA) í dag. Samninga­nefndirnar funda klukkan 13 í dag.

Í við­tali við Morgunút­varpið á Rás 2 í morgun greindi Sól­veig Anna frá því að samninga­nefnd fé­lagsins hafi fundað til að undir­búa sig fyrir fund dagsins. Hún var harð­orð og gagn­rýndi það að þvinga eigi fé­lagið til að ganga að sömu samningum og VR og SGS þrátt fyrir að þau séu stærsta stéttar­fé­lagið á vinnu­markaði.

„Þrátt fyrir það að Efling sé stærsta fé­lagið þá á að svipta okkur sjálf­stæðum samnings­rétt og þvinga okkur til að taka við samningi sem aðrir menn skrifuðu og sömdu um,“ sagði Sól­veig Anna og sagði þetta að­för að fé­laginu og samninga­nefndinni.

Hún sagðist vonast til þess að eitt­hvað breyttist á fundinum í dag en tók þó fram að hún væri ekki von­góð.

Spurð hvernig SA tók í til­boð og kröfu­gerð þeirra í nóvember sagðist hún engin við­brögð hafa fengið og segir að aftur hafi svo það skilað engum árangri að senda til­boð í desember. Þau hafi engin mál­efna­leg til­boð fengið til baka frá SA.

„Það er ó­á­sættan­legt að láta aðra semja fyrir okkur,“ sagði Sól­veig Anna og að það væri ó­á­sættan­legt að hlýða skipunum SA. Hún sagði SA ekki sýna fag­leg vinnu­brögð eða samnings­vilja og að við­ræðurnar væru hálf­gerður skrípa­leikur.

Sól­veig Anna sagði samnings­vilja þeirra mikinn en vildi ekki tjá sig um það hvort það stefndi í verk­fall. Það yrði að fara eftir fundinum seinna í dag.

„Vinnu­aflið hefur þetta vopn,“ sagði Sól­veig Anna og að ef það fari þá leið sé það al­ger­lega á á­byrgð SA því þau hafi sýnt til­lits­leysi og hroka og „misst jarð­tengingu“.

Enginn sigur fyrir verkalýðinn

Í við­talinu við morgunút­varpið fór Sól­veig Anna einnig yfir niður­stöðu Fé­lags­dóms sem komst að því að upp­sögn Gabríels Benja­min hefði ekki verið rétt­mæt.

Spurð hvort dómurinn væri sigur fyrir verka­lýðinn eins og Gabríel orðaði það í stöðu­upp­færslu í gær sagðist Sól­veig Anna ekki sam­mála því.

Hún gagn­rýndi mjög mál­flutning Gabríels í fjöl­miðlum og dóm Fé­lags­dóms sem henni þykir fara gegn dóma­fram­kvæmd. Gabríel hafi ekki verið sagt upp vegna þess að hann var trúnaðar­maður, heldur var honum sagt upp sem hluta af hóp­upp­sögn.

Spurð hvort hún hefði farið öðru­vísi að skipu­lags­breytingunum sagði Sól­veig Anna að hún myndi ekki gera það. Þær hefðu verið vel fram­kvæmdar og hún myndi ekki breyta neinu.

„Við myndum ekki gera neitt öðru­vísi en við gerðum,“ sagði Sól­veig Anna.