Alþýðusamband Íslands segir mikilvægt að stjórnvöld, fjármálastofnanir og aðrir kröfuhafar komi til móts við fólk í ljósi COVID-19 faraldursins en faraldurinn hefur áhrif á atvinnu og afkomu heimila í landinu. Öllu máli skipti að tryggja afkomuöryggi heimila og að setja heilsu fólks í forgang.
„Liður í þessu er að opinberir aðilar, sveitarfélög, fjármálastofnanir, leigufélög, lífeyrissjóðir og aðrir kröfuhafar sýni sanngirni og sveigjanleika varðandi greiðslufresti á meðan mesta óvissan stendur yfir,“ segir í tilkynningu ASÍ um málið. Þá sé mikilvægt að fólki gefist tækifæri til að dreifa greiðslum og lenga í lánum svo greiðslubyrði verði ekki of mikil.
Sambandið beinir því til banka, fjármálastofnana, lífeyrissjóða og leigufélaga, sem hafa tilkynnt um rýmri úrræði fyrir heimili, að hafa skuli að leiðarljósi að upplýsa einstaklinga með skýrum og greinargóðum hætti hvað felur í úrræðunum og hvaða leiðir hægt sé að fara til að draga úr langtímaáhrifum á fjárhag heimilanna. Kostnaði við innheimtur skuli einnig vera haldið í lágmarki.
„Alþýðusambandið telur með öllu óásættanlegt að kröfuhafar geti nýtt sér þá neyð sem blasir við mörgum heimilum við núverandi aðstæður. ASÍ mun á næstunni fylgjast náið með þeim greiðsluerfiðleikaúrræðum sem boðið verður upp á og þeim þjónustugjöldum sem innheimt verða vegna þeirra,“ segir að lokum í tilkynningunni.