Fjölmiðlafrumvarp Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra var samþykkt í gær með 34 atkvæðum gegn 11. Þá sátu 12 þingmenn hjá við atkvæðagreiðsluna. Með frumvarpinu fá einkareknir fjölmiðlar beina ríkisstyrki fyrir tvö rekstrarár.

Flestir þingmenn ríkisstjórnarflokkanna og Samfylkingar kusu með frumvarpinu, þingmenn Miðflokks og Flokks fólksins á móti en þingmenn Viðreisnar og Pírata sátu hjá.

Óánægjudeild Sjálfstæðisflokksins tvístraðist í atkvæðagreiðslunni. Páll Magnússon og Ásmundur Friðriksson kusu með, Sigríður Andersen á móti en Óli Björn Kárason, Brynjar Níelsson og Jón Gunnarsson skiluðu auðu.

„Ég ætlaði nú ekki að stoppa stjórnarfrumvarpið. Ég hélt ræðu og vildi að frumvarp okkar Óla Björns um RÚV yrði tekið með inn í heildstæða umræðu um fjölmiðlaumhverfið,“ segir Brynjar. En frumvarp þeirra laut að því að taka RÚV af auglýsingamarkaði í tveimur skrefum.

Brynjar segist geta sætt sig við þessa lausn til skamms tíma. Einnig að ekki verði hjá því komist að fara í endurskoðun á hlutverki RÚV til að búa til eðlilegt rekstrarumhverfi fyrir einkarekna fjölmiðla.

Í ræðu fyrir atkvæðagreiðsluna sagði Lilja Alfreðsdóttir lögin vera söguleg og langþráð. „Það er fagnaðarefni að þessum áfanga sé náð, jafnvel þótt hann kunni að vera sá fyrsti af mörgum til að efla íslenska fjölmiðla. Fyrirmyndin er norræn. Í Finnlandi, Noregi og Danmörku eru veittir beinir ríkisstyrkir til fjölmiðla,“ sagði hún.

„Um leið og menn samþykkja svona frumvarp er alltaf hætta á að þessi leið beinna ríkisstyrkja festist í sessi,“ segir Brynjar. „Svo kemur að því að framlögin duga ekki lengur til að halda lífinu í fjölmiðlum og þá kemur krafan um hærri styrki.“