Ákvörðun samfélagsmiðilsins Tumblr um að banna hvers kyns klám á síðunni eftir að Apple fjarlægði app miðilsins úr App Store vegna barnakláms fellur illa í kramið á meðal notenda. 

Tumblr samanstendur af ljósmyndabloggum milljóna notenda og birta sum blogganna klámfengnar myndir. Fjölmargir notendur og eigendur vinsælla blogga hafa haldið því fram að Tumblr hafi gengið of langt í viðbrögðum sínum.

The Verge ræddi við einn slíkan bloggara, sjálfstæðu klámmyndaleikkonuna Vex Ashley. „Kynlíf var ekki tabú á Tumblr. Það fékk að standa þar með reisn rétt eins og allir aðrar kimar menningar okkar kynslóðar,“ sagði Ashley.

Sami miðill fjallaði um möguleikann á því að bannið myndi hreinlega drepa Tumblr í ítarlegri umfjöllun. Bent var á að LiveJournal, ekki svo ólíkur bloggvefur, hafi svo gott sem dáið eftir að síðan tók sömu ákvörðun. Margir notenda LiveJournal hafi í kjölfarið fært sig yfir til Tumblr.