Mikill fjöldi fólks er í sótt­kví á Akur­eyri og eru krakkar meiri­hluti þess hóps. Aukinnar ó­­á­­nægju gætir þó meðal íbúa með að­­gerðir sótt­varnar­yfir­­valda. Þetta segir Karl Frí­­manns­­son, fræðslu­­stjóri Akur­eyrar­bæjar.

„Ég er að fá fleiri sím­töl og á fleiri sam­­skipti við fólk sem er ó­­sátt við stöðuna. Það beinist helst að því að svona margir séu sendir í sótt­kví og hlut­­falls­­lega eru mjög margir í sótt­kví hér, saman­borið við höfuð­borgar­svæðið, til að mynda,“ segir Karl. Ýmsir vinnustaðir séu undirmannaðir vegna fólks í sóttkví.

Ósamræmi í störfum yfirvalda

Hann segir þó að þessi mikli fjöldi útskýrist af ein­hverju leyti vegna þess hóps sem verið sé að senda í sótt­kví. Erfiðara reynist fyrir rakninga­t­eymið að rekja ung­menni og krakka. Til öryggis sé því á­kveðið að setja þá hópa sem voru á sömu stöðum í sótt­kví.

Á­kveðins ó­sam­ræmis gæti hins vegar í störfum yfir­valda. „Dæmi eru um börn sem send eru í sótt­kví sem voru ekki einu sinni á þeim stað sem þau áttu að hafa verið á. Þar verða yfir­völd að vera sjálfum sér sam­kvæm. Enda­punkturinn er þó sá að það er verið að hugsa um heilsu fólks,“ segir Karl.

Tómstundastarf liggur niðri


Varðandi fram­haldið segir Karl að staðan verði tekin með sótt­varnar­yfir­völdum eftir því hvernig málin þróist. „Í­þrótta­æfingar barna liggja að mestu niðri á­samt tóm­stundum og fé­lags­mið­stöðvar­starfi. Þá á það líka við um sam­vals­greinar í skólum þar sem nem­endur úr mis­munandi skólum koma saman, við erum bara með það í bið. Svo bíðum við bara eftir til­mælum frá rakningar­teyminu og sótt­varnar­yfir­völdum.“

„Það er bjartara framundan"

Hann veit ekki hve­nær von sé á frekari til­mælum frá yfir­völdum. „Í raun og veru er ekkert gefið út um það en um leið og tölurnar fara að breytast til batnaðar þá reikna ég bara með að þau gefi eitt­hvað út. Fólk verður náttúru­lega beðið um að fara var­lega og gera allt sem við þekkjum svo vel.“

Karl segir þó að út­litið sé betra. „Það er bjartara fram­undan virðist vera, varðandi fjölda barna í sótt­kví meðal annars. Þetta stendur að­eins í stað núna en það er farið að fækka og mun gera það væntan­lega strax eftir helgi. Það er svona út­lit fyrir það.“