Tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks, Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokks og Flokks fólksins um íbúakosningu um deiliskipulag við Stekkjarbakka var felld á fundi borgarstjórnar í kvöld með 12 atkvæðum meirihlutans á móti 11 atkvæðum minnihlutans.

„Það yrði óafturkræft fyrir ósnortna náttúruna ef gengið verður á dalinn með umfangsmikilli gróðurhvelfingu fyrir verslunarrekstur og atvinnustarfsemi,“ segir í bókun Sjálfstæðisflokksins um málið en þar kemur fram að Landvernd, Hollvinasamtök Elliðaárdalsins og Stangaveiðifélagið Reykjavíkur hafi öll gert athugasemdir við skipulagið.

Engin venjuleg lóð

Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, bendir á í samtali við Fréttablaðið að umræddri lóð hafi verið útdeilt án auglýsingar.

„Að auki mun umferð á svæðinu aukast, en þarna á að leggja 4500 fermetra land undir bílastæði á grænu svæði sem ætti í raun að vera laust við bílaumferð.“

„Þetta eru gríðarlegir hagsmunir enda er þetta engin venjuleg lóð. Þetta er lóð inni í Elliðaárdalnum. Hún fer í hendurnar á völdum aðilum og það vekur upp spurningar um hvaða undirliggjandi hagsmunir búi þar að baki,“ segir Hildur.

„Að auki mun umferð á svæðinu aukast, en þarna á að leggja 4500 fermetra land undir bílastæði á grænu svæði sem ætti í raun að vera laust við bílaumferð,“ bendir Hildur á og bætir við að hætta sé á að hljóðmengun aukist í dalnum sem raski friði þar.

Unnin var aðalskipulagsbreyting árið 2017 til að meta þörf fyrir tvöföldun Stekkjarbakka, að fara úr tveimur í fjórar akreinar en áætluð umferð um svæðið gaf ekki tilefni til tvöföldunar. Núverandi hljóðvistarkort hafa sýnt að hávaði frá umferð til nærliggjandi byggðar í Stekkjum er um 62dB.

Þetta kemur fram í samantekt á athugasemdum, vegna deiliskipulags Stekkjarbakka Þ73, frá Umhverfis og skipulagssviði Reykjavíkurborgar.

Ekki um að ræða eiginlegt grænt svæði í borginni til útivistariðkunar, heldur þróunarsvæði sem er ekki hluti af dalnum samkvæmt skilgreiningu á landnotkun í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030.

Gera ráð fyrir vinstvænum ferðarmáta

Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, formaður Skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar, segir að í skipulaginu sé gert ráð fyrir að flestir nýti sér vistvæna ferðarmáta.

"Umferðaraukning við Stekkjarbakka er í mjög litlum mæli einfaldlega vegna þess einungis er heimilt að hafa 80 bílastæði á svæðinu og gert er ráð fyrir að langflestir sem komi á svæðið munu nýta sér vistvæna ferðarmáta eða hópferðarbíla," segir Sigurborg.

Bókun Sjálfstæðisflokksins í heild sinni:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja ríka áherslu á verndun grænna svæða í borgarlandinu og leggjast gegn hvers kyns húsnæðisuppbyggingu í Elliðaárdalnum. Umsagnir við deiliskipulagið bera með sér mikla andstöðu við uppbyggingaráformin. Landvernd, Hollvinasamtök Elliðaárdalsins og Stangaveiðifélagið Reykjavíkur hafa öll gert athugasemdir við skipulagið. Enn fremur hefur Umhverfisstofnun og Skipulagsstofnun gagnrýnt áformin.

Það yrði óafturkræft fyrir ósnortna náttúruna ef gengið verður á dalinn með umfangsmikilli gróðurhvelfingu fyrir verslunarrekstur og atvinnustarfsemi. Gert er ráð fyrir 12.027 fermetra lóð til Aldin BioDome, að gróðurhvelfingin verði 4.500 fermetrar, auk þess verða teknir aukalega 4.432 fermetrar undir bílastæði. Þar með er ekki öll sagan sögð en heildarskipulagssvæðið hljóðar upp á 45.000 fermetra. Kostnaðurinn við verkefnið er sagður 4.500 milljónir króna eða ein milljón á hvern fermetra. Algjör óvissa ríkir um fjármögnun þess hjá borgaryfirvöldum.

Hér er borgin að útdeila gæðum – lóð á besta stað – án auglýsingar í eigu Reykvíkinga og án þess að greitt sé fyrir þau að fullu. Skattgreiðendur þurfa að leggja út í mikinn kostnað, sem gæti hlaupið á hátt milljarði. Ef illa fer er borgin búinn að leggja út í mikinn kostnað við skipulag. Ef eitthvað mál á heima í íbúakosningu þá ætti það einmitt að vera þetta mál, enda er þetta umhverfismál sem varðar alla Reykvíkinga og ætti að vera hafið yfir pólitíska flokkadrætti.“