Fé­lags­ráð­gjafinn Guð­rún Andrea er á meðal þeirra ein­stak­linga sem hafa fengið á­vísað megrunar­lyf sem komu á markað hér á landi árið 2018, en í dag var greint frá því að sprenging hefur orðið á notkun slíkra lyfja og hefur notkunin nær tí­faldast á fjórum árum. Guð­rún segir ó­á­byrgt að tala um slík lyf einungis sem megrunar­lyf og kallar eftir að læknar og aðrir sem ávísa slíkum lyfjum taki ábyrgð.

Guð­rún er greind með kven­sjúk­dóminn PCOS, eða Fjöl­blöðru­eggja­stokkaheil­kenni. Að hennar sögn fylgir því insúlínvið­nám, sem kemur í veg fyrir að ein­stak­lingur geti brotið niður fitu meðal annars. Ein­staklingar með PCOS geta átt í hættu á að þróa með sér sykur­sýki 2 eða hjarta- og æða­sjúk­dóma seinna á lífs­leiðinni.

„Ég byrjaði á því bara út af því að ég var að díla við þyngdar­vanda­mál í kjöl­farið á þessu. Hugsandi út í fram­tíðina, þá vildi ég ekki vera ein þeirra sem fengi sykur­sýki 2 eða hjarta-og æða­sjúk­dóma,“ segir Guð­rún.

Að sögn Guð­rúnar er til fólk sem mis­notar slík lyf í þeim til­gangi að grenna sig. Hún segir að á­byrgðin liggi hjá læknum og þeim aðilum sem á­vísa slíkum lyfjum.

„Þetta er kannski ekki hentugt í ein­hverjum skamm­tíma­til­gangi til þess að missa ein­hver tíu kíló til að komast í árs­há­tíðar­kjólinn sinn,“ segir Guð­rún.

Guðrún segir að umrædd lyf hafi hjálpað fólki sem glímir við einhverskonar heilsufarsvandamál.

„Ég veit um eitt­hvað fólk sem þetta hefur virkað vel fyrir. Á sömu for­sendum og í svipaðir stöðu og ég, eða hafa verið að díla við lang­varandi þyngdar­vanda­mál,“ segir Guð­rún.

Hefur lyfið hjálpað þér?

„Já það hefur gert það. Til dæmis í tengslum við blóð­þrýsting, sem hefur lækkað úr há­þrýsti­mörkum og niður. Ég veit ekki hvort það fylgi endi­lega þyngdar­tapinu eða hvort það fylgi öðru. Blóð­gildin hafa batnað og varðandi fjöl­blöðru­eggja­stokka ein­kennið þá er ég laus við blöðrur í dag, en það hefur til dæmis á­hrif á frjó­semi og blæðingar og alls konar þannig,“ segir Guð­rún.

Henni finnst ó­á­byrgt að tala um slík lyf einungis sem megrunar­lyf, þar sem til­gangurinn er oft á tíðum bætt heilsa fólks.

„Mér finnst ó­á­byrgt að tala um þetta sem megrunar­lyf, vegna þess að til­gangurinn er ekki endi­lega að megra sig hjá fólki sem fer á þetta lyf. Til­gangurinn er kannski bætt heilsa, fremur en að léttast eða grennast,“ segir Guð­rún.

Við­talið við Guð­rúnu er hægt að sjá í heild sinni hér fyrir neðan.