Félagsráðgjafinn Guðrún Andrea er á meðal þeirra einstaklinga sem hafa fengið ávísað megrunarlyf sem komu á markað hér á landi árið 2018, en í dag var greint frá því að sprenging hefur orðið á notkun slíkra lyfja og hefur notkunin nær tífaldast á fjórum árum. Guðrún segir óábyrgt að tala um slík lyf einungis sem megrunarlyf og kallar eftir að læknar og aðrir sem ávísa slíkum lyfjum taki ábyrgð.
Guðrún er greind með kvensjúkdóminn PCOS, eða Fjölblöðrueggjastokkaheilkenni. Að hennar sögn fylgir því insúlínviðnám, sem kemur í veg fyrir að einstaklingur geti brotið niður fitu meðal annars. Einstaklingar með PCOS geta átt í hættu á að þróa með sér sykursýki 2 eða hjarta- og æðasjúkdóma seinna á lífsleiðinni.
„Ég byrjaði á því bara út af því að ég var að díla við þyngdarvandamál í kjölfarið á þessu. Hugsandi út í framtíðina, þá vildi ég ekki vera ein þeirra sem fengi sykursýki 2 eða hjarta-og æðasjúkdóma,“ segir Guðrún.
Að sögn Guðrúnar er til fólk sem misnotar slík lyf í þeim tilgangi að grenna sig. Hún segir að ábyrgðin liggi hjá læknum og þeim aðilum sem ávísa slíkum lyfjum.
„Þetta er kannski ekki hentugt í einhverjum skammtímatilgangi til þess að missa einhver tíu kíló til að komast í árshátíðarkjólinn sinn,“ segir Guðrún.
Hæ hæ, nú er ég að berskjalda mig. Ég er ein af þessum á "megrunarlyfi". Ég er nefnilega með kvensjúkdóminn pcos og honum fylgir insúlínviðnám sem eykur líkur á sykursýki 2 sem mig langar ekki að fá, og er nú þegar í aukinni hættu á að fá þar sem ég fékk 1/ pic.twitter.com/lSoACTJF1I
— Guðrún Andrea (@grullubangsi) February 2, 2023
Guðrún segir að umrædd lyf hafi hjálpað fólki sem glímir við einhverskonar heilsufarsvandamál.
„Ég veit um eitthvað fólk sem þetta hefur virkað vel fyrir. Á sömu forsendum og í svipaðir stöðu og ég, eða hafa verið að díla við langvarandi þyngdarvandamál,“ segir Guðrún.
Hefur lyfið hjálpað þér?
„Já það hefur gert það. Til dæmis í tengslum við blóðþrýsting, sem hefur lækkað úr háþrýstimörkum og niður. Ég veit ekki hvort það fylgi endilega þyngdartapinu eða hvort það fylgi öðru. Blóðgildin hafa batnað og varðandi fjölblöðrueggjastokka einkennið þá er ég laus við blöðrur í dag, en það hefur til dæmis áhrif á frjósemi og blæðingar og alls konar þannig,“ segir Guðrún.
Henni finnst óábyrgt að tala um slík lyf einungis sem megrunarlyf, þar sem tilgangurinn er oft á tíðum bætt heilsa fólks.
„Mér finnst óábyrgt að tala um þetta sem megrunarlyf, vegna þess að tilgangurinn er ekki endilega að megra sig hjá fólki sem fer á þetta lyf. Tilgangurinn er kannski bætt heilsa, fremur en að léttast eða grennast,“ segir Guðrún.
Viðtalið við Guðrúnu er hægt að sjá í heild sinni hér fyrir neðan.