Norræna siglir frá Hirtshals í dag og kemur til Seyðisfjarðar á þriðjudag, í fyrstu siglinguna eftir miklar breytingar. Smyril Line, útgerð skipsins, ákvað að nýta tímann í faraldrinum til allsherjar andlitslyftingar á skipinu fyrir tvo milljarða króna, bætti við káetum, veitingastað og fleiru ofan á það.

Linda Björk Gunnlaugsdóttir, framkvæmdastjóri Smyril Line á Íslandi, segir framkvæmdirnar hafa gengið mjög vel og staðist allar áætlanir, bæði hvað varðar tíma og kostnað. Að bæta heilli hæð ofan á skip er ekki einfalt mál og því hafi þurft að hyggja að mörgu. En verkið var framkvæmt í Fayard-skipasmiðjunni í Mynkebo nálægt Óðisvéum. „Þetta gekk betur en við þorðum að vona og skipið er flott í sjó,“ segir Linda.

Alls var 50 káetum bætt við, svítu og 49 tveggja manna herbergjum. Ofan á þær var sett kaffihús og bar með góðu útsýni. Samfara stóru breytingunum var farið gagngert yfir skipið og ýmislegt uppfært svo sem ný teppi, gardínur, innréttingar á veitingastaðina og móttaka. Þá var stíllinn yfirfarinn og komið fyrir mörgum myndum frá Íslandi og Færeyjum á gangana.

Linda segir að Seyðfirðingar og fleiri muni taka eftir miklum breytingum þegar skipið siglir í höfn á þriðjudag. „Vitaskuld hefðum við vilja halda viðburð og bjóða fólki að koma að skoða. Vegna faraldursins verður það að bíða að við getum haft opið skip,“ segir hún.

F23201216 cargo 1.jpg

Linda Björk Gunnlaugsdóttir framkvæmdastjóri Smyril Line á Íslandi.

Áætlunarsiglingar hinnar nýuppfærðu Norrænu hefjast um helgina, en á meðan skipið var í slipp sinnti afleysingaskip siglingunum. Vegna aðstæðna eru farþegarnir ekki mjög margir þessa dagana en eitthvað um bókanir, meðal annars hjá Pólverjum búsettum á Íslandi.

„Við höfum væntingar til þess að seinnipartur sumarsins og haustið verði gott út frá farþegaflutningum séð,“ segir Linda. „Það sem heldur uppi leiðinni núna eru fraktflutningarnir. Við flytjum meðal annars ferskan fisk og lax að austan, vestan og norðan. Þetta er mjög mikilvæg leið í ferskútflutningi. Skipið fer héðan á miðvikudagskvöld og fiskinum er dreift í Evrópu aðfaranótt mánudags.“

Linda segir þær miklu aurskriður sem féllu í desember síðastliðnum ekki hafa haft áhrif á starfsemi Norrænu. Skrifstofan og vöruhúsið séu hinum megin við höfnina og aðkoman og farþegahúsið hafi sloppið við skriðurnar. „Starfsfólk okkar hefur hins vegar orðið fyrir tjóni og skriðurnar voru mikið áfall fyrir Seyðisfjörð,“ segir Linda. „Bærinn er núna að rísa upp úr þessu. Þetta er duglegt fólk.“

_DSC3261 copy.jpg

_DSC0212.jpg

_DSC0088.jpg

_DSC0096.jpg

_DSC0079.jpg