„Ég held að ég hafi ferðast til um 28 landa, mest í Evrópu, Asíu, Eyjaálfu og Norður-Ameríku, en ég hef aldrei komið til Suður-Ameríku og bara til Marokkó í Afríku. Í Evrópu finnst mér skemmtilegast að fara í Alpana, bæði um sumar og vetur, þeir eru svo fallegir og mikilfenglegir. Svo fer ég mikið til Frakklands, og kann sérstaklega vel að meta suðurhluta Frakklands,“ segir Gísli.

Hann nýtur þess einnig að ferðast innanlands og er Suðurlandið hans uppáhald. „Svo er ég líka mjög hrifinn af Ströndunum, það er svo mikil galdrastemning þar. Ég reyni alltaf að komast þangað á hverju ári og fá töfrana beint í æð.“

Gísli hefur gaman af því að ferðast innan og utan lands.

Fjarlægðin frá dagsdaglegum verkum það besta

Gísli segir það besta við að ferðast vera fjarlægðina sem hann fær frá því dagsdaglega.

„Mér finnst ég allavega yfirleitt sjá allt í öðru ljósi þegar ég kem til baka úr ferðalögum. Svo hef ég tekið eftir að maður kynnist samferðafólkinu á dýpri hátt en áður, kannski í kjölfar þess að deila sömu reynslu. Til dæmis þegar maður ferðast með fjölskyldunni þá er þessi gæðatími sem verður til í bunkum af því það eru bara allir saman í fríi og enginn upptekinn við annað eins og oft er raunin þegar allir eru heima og bara í sinni dagskrá og rútínu.“

Ferðalög hafa jákvæð áhrif á líf Gísla á ýmsan hátt. Til að mynda segir hann þau minnka streitu þrátt fyrir að það fari eftir eðli ferðalagsins hversu mikil streita fylgi því.

„Hver kannast til dæmis ekki við pirringinn sem getur myndast eftir langt flug þegar leitað er að bílaleigubílnum og allir þreyttir og svangir?“ spyr Gísli.

„Yfirleitt er ég þó rólegri og yfirvegaðri á ferðalögum en vanalega. Sérstaklega ef því fylgir útivist, mér finnst ég sjaldan í betra jafnvægi og í tengingu við sjálfan mig en úti í náttúrunni. Það er líka svo áhugavert að leyfa sér að finna fyrir orkunni, sem er mismunandi og aldrei sú sama frá einum stað til annars,“ segir Gísli.

Feðgarnir á ferðalagi.

Draumafríið með syninum

Þegar Gísli er spurður um draumafríið segist hann vera spenntur fyrir því að ferðast á fjölda staða en það sem skipti mestu máli sé að Ólíver Helgi sonur hans sé með í för

„Ætli draumaferðalagið væri ekki bara við tveir í heimsreisu? Hver veit nema það verði að veruleika þegar hann er kannski orðinn aðeins eldri?“ segir Gísli að lokum.