„Við erum kannski ekki búin að skipuleggja ferðaplanið í smáatriðum, en við stefnum á að stoppa á Akureyri, Húsavík og Seyðisfirði. Mögulega stoppum við í einhverjum smærri höfnum á leiðinni,“ segir Birgitta Vittberg, sem siglir nú ásamt eiginmanni sínum í kringum Ísland.

Þau Birgitta og Hans sigldu hingað frá Gautaborg þar sem þau búa og höfðu viðkomu í Stavanger í Noregi, Leirvík á Hjaltlandseyjum og Þórshöfn í Færeyjum.

„Við fórum ekki frá borði í tæpar tvær vikur og fengum mat sendan niður í bátinn. Þannig að við vorum bara í sóttkví um borð,“ segir Birgitta. Þetta er annað sumarið í röð sem þau sigla til Íslands, en í fyrra sigldu þau til Seyðisfjarðar.

„Við urðum mjög hrifin og ákváðum að skipuleggja aðra ferð til Íslands. Svo kom auðvitað kóróna­veiran, en við undirbjuggum okkur mjög vel og vorum í sambandi við yfirvöld á þeim stöðum sem við sigldum á,“ segir Birgitta.

Þau stoppuðu fyrst í Vestmannaeyjum, þaðan sem þau sigldu svo til Reykjavíkur. Þar heimsóttu þau meðal annars Håkan Juholt, sendiherra Svíþjóðar á Íslandi.

Frá Reykjavík sigldu þau síðastliðinn mánudag og var ferðinni heitið til Ísafjarðar. Voru þau búin að áætla 36 tíma í siglinguna en fengu góðan meðbyr og komu á áfangastað aðfararnótt miðvikudags.

Birgitta og Hans 02.jpg

„Nú erum við hér á Ísafirði í sól og frábæru veðri. Lífið leikur við okkur. Þetta hefur allt saman gengið mjög vel,“ segir Hans.

Hann segist vera mjög spenntur fyrir því að sigla norður fyrir landið. Honum lítist mjög vel á Ísafjörð og hlakki til að koma aftur til Seyðisfjarðar, þaðan sem þau sigla aftur heim.

Hjónin eru bæði vön siglingum og segist Birgitta hafa siglt nánast frá fæðingu. Þau hafi raunar kynnst á seglskútu á leið til Færeyja fyrir mörgum árum. Hún segir að þau sigli mikið á heimaslóðum sínum, þar sem vesturströnd Noregs er skammt undan, en einnig suður til Danmerkur og Hollands.

„Þetta hefur verið aðeins öðruvísi en að sigla heima. Við sigldum lengi fyrir opnu hafi á leiðinni hingað, en maður þarf bara að vera vel undirbúinn fyrir það,“ segir Hans.

Birgitta bætir við að þau séu bæði hætt að vinna og hafi nægan tíma. „Við þurfum ekki að vera komin heim á einhverjum ákveðnum tíma og getum beðið eftir góðum veðurskilyrðum áður en við höldum áfram.“

Þau Birgitta og Hans hafa haldið erindi um siglingar sínar til Íslands. „Okkur datt í hug að við gætum kannski orðið öðrum eldri borgurum hvatning til gera eitthvað svona,“ segir Hans.