Össur framleiddi flutnings- og einangrunrahjúpa fyrir Landspítalann á örfáum dögum. Hjúparnir, sem minna á hitakassa fyrir nýbura, eru notaðir til að flytja fólk sem er smitað af kórónaveirusjúkdómnum COVID-19 innan og fyrir utan spítalann.

Landspítalinn hafði samband við heilbrigðistæknifyrirtækið í síðustu viku um hugsanlega þátttöku í að útbúa flutningshjúpa en spítalinn átti nú þegar nokkra flutningshjúpa en vegna Covid-19 sá hann fram á að þurfa á fleiri að halda.

„Okkar fólk fór á fullt í þetta og vann þetta eftir erlendri fyrirmynd en ávallt í nánu samstarfi við starfsfólk spítalans,“ segir Edda H. Geirsdottir, upplýsingafulltrúi hjá Össuri, í samtali við Fréttablaðið.

Aðspurð um framleiðsluna segir Edda að starfsfólk hafi látið önnur verkefni niður falla og farið strax í að hanna kassana fyrir spítalann.

Össur framleiðir alls fimm hjúpa og verða tveir færðir Landspítalanum í dag.
Mynd:Össur

„Þetta eru mjög hæfileikaríkir „alt-mulig menn“ sem starfa hjá okkur sem gátu nýtt efni og hugvit í að hanna þetta. Bæði gátu þeir nýtt það sem við áttum til og fengu efni frá öðrum. Plastið var fengið frá Seglagerðinni. Svo fóru þeir í þetta; brettu upp ermar og létu þetta gerast.“

Össur framleiðir alls fimm hjúpa og verða tveir færðir Landspítalanum í dag. Össur gefur búnaðinn og alla vinnu í von um að framlagið nýtist þjóðinni á þessum fordæmalausu tímum.

„Við erum búin að afhenda einn síðastliðinn þriðjudag. Svo er einn á leiðinni norður á FSA á Akureyri svo hægt sé að nýta í sjúkraflug suður. Tveir til viðbótar fara á Landspítalann í dag og búið er að gefa vilyrði fyrir einn í viðbót.“

Hjúpurinn sem Landspítalinn fékk á þriðjudaginn hefur þegar verið tekinn í notkun.

Í kössunum eru sérstakar kola-síur sem sía út útöndun frá sjúklingnum. Einnig eru hólf með vettlingum svo hjúkrunarfræðingar og aðrir geti sinnt sjúklingnum.
Mynd:Össur