Sara Magnúsar­dóttir segist hafa nýtt sér meira­prófið í yfir­liðs­fræðunum í Laugar­dals­höll í dag þar sem hún mætti í bólu­setningu gegn CO­VID-19. Sara er afar þakk­lát skjótum við­brögðum starfs­fólks í Höllinni og hrósar ferlinu í há­stert.

Eins og Frétta­blaðið greindi frá í dag féllu í hið minnsta fimm í yfir­lið í fyrstu at­rennu á bólu­setningum í Laugar­dals­höllinni í morgun. Bólusett var með bóluefni Janssen í dag. Sara segir að hún hafi alls ekki verið sú eina í þeim að­stæðum og hefur húmor fyrir málinu öllu saman.

„Ég á­kvað að vera með smá at­riði. Ekkert með látum samt,“ segir hún hress í bragði. Eftir að búið var að bólu­setja Söru varð hún að leggjast í gólfið, þar sem heil­brigðis­starfs­fólk kom henni í hjóla­stól og til að­stoðar.

Að­spurð að því hvort hún hafi búist við því að þetta yrði erfitt í dag segir Sara svo vera. „Ég á mér nú alveg smá sögu en yfir­leitt er þetta bara kvíðinn fyrir því að þetta gerist. Þetta er mjög skrítið,“ segir Sara.

„Mér datt alveg í hug að þetta gæti gerst en ég var samt búin að á­kveða að þetta ætti ekki að gerast því ég vildi ekki vera þessi sem væri verið að tala um,“ segir hún létt í bragði. Hún er gífur­lega á­nægð með verk­lagið í Laugar­dals­höll og að­stoðina.

Öllum er gert að sitja í skamma stund eftir að bólu­setningu er lokið. „Svo sátum við bara þarna og ég finn að ég byrja að svitna. Og ég hugsa bara „Nei heyrðu þetta er ekki í boði,“ segir Sara. Þá hafi hún lagst í gólfið, með fæturna upp á gólf. Stuttu síðar hafi starfs­menn komið og lyft henni upp í hjóla­stól.

„Það var ekkert vanda­mál og ekkert vesen. Svo var mér trillað þarna bak­sviðs og þar var ég nú ekki ein, sem betur fer. Þar voru nokkrar aðrar ó­heilla­krákur sem hafði ekki liðið nógu vel,“ segir hún. Nýju fólki var reglu­lega trillað inn bak­sviðs á meðan Sara var þar.

Blóð­þrýstingurinn var tekinn, Söru gefið Prins Póló súkku­laði og vatn. „Og ég mátti ekkert fara fyrr en eftir ein­hverjar mínútur, svo þeir væru alveg vissir um að ég væri í stakk búin til að fara. Mér fannst það mjög flott.“

Sara hefur mikinn húmor fyrir eigin að­stæðum og var hress nú síð­degis þegar Frétta­blaðið ræddi við hana. Hún hefur ekki fundið fyrir neinum auka­verkunum.

„Við náttúru­lega vorum þau fyrstu til að fá Jans­sen,“ segir Sara. Það þýðir að hópurinn í dag þarf ekki að mæta í seinni sprautu síðar líkt og þeir sem fá önnur bóluefni. „Sem betur fer! Ég er ekki viss um að ég hefði þorað að fara aftur,“ segir hún í gríni hlæjandi.