Svo virðist sem að starfsmenn Skoda í Þýskalandi hafi sýnt útlit nýrrar Octavíu fyrir mistök, en mynd af bílnum birtist í skamma stund á vefsíðu sem sýnir samsetningu bílsins. Myndin var tekin niður jafnharðan en þá höfðu margar bílafréttaveitur náð að hlaða henni niður, en ný Skoda Octavia verður ekki frumsýnd fyrr en í næsta mánuði. Eins og við var að búast sækir bíllinn útlit sitt í nýtt útlit Superb og Scala og er stærra grill ásamt samvöxnum framljósum mest áberandi. Ekki er búist við því að bíllinn stækki í málum enda notast hann þegar við MQB undirvagninn líkt og nýr Golf. Samkvæmt heimildum innan VW mun aukin notkun léttmálma minnka þyngd Golf um 50 kg og líklegt má teljast að sama verði uppá teningnum í Octavia. Einnig er búist við að ný Skoda Oktavia verði í fyrsta skipti fáanleg sem tengiltvinnbíll.