Vísindamenn hjá Íslenskri erfðagreiningu hafa þróað líkan sem spáir fyrir um hversu langt fólk á eftir ólifað af mun meiri nákvæmni en líkön sem styðjast við hefðbundna áhættuþætti.

Líkanið styðst við mælingar á eggjahvítuefnum í blóði og upplýsingar um aldur og kyn og eru því mælingarnar lagðar saman við hina hefðbundu þætti sem er t.d. offita.

Ein blóðprufa

„Með líkaninu er hægt að meta almenna heilsu nokkuð vel út frá einni blóðprufu,“ segir Þjóðbjörg Eiríksdóttir vísindamaður hjá Íslenskri erfðagreiningu og einn höfunda rannsóknarinnar.

Fjallað er um rannsóknina í vísindaritinu Communications Biology í dag.

„Þetta er flott en líka fremur ógnvekjandi en vonandi kemur þetta að gagni,“ segir Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar og einn höfunda greinarinnar. Þetta sýni okkur að almennt heilsufar okkar endurspeglast í eggjahvítuefnum í blóði, að mati Kára.

Meta meðal örlög fólks

Ekki er þó verið að segja til um hvað tiltekin einstaklingur muni lifa lengi: "Þarna erum við að meta hópinn í sjálfu sér en ekki einstaklinginn, þetta er frá mínum bæjardyrum séð aðferð við að meta meðalörlög fólks í hópi," segir Kári. Þannig megi prófa árangur af notkun lyfja, s.s. eins og fyrir lækkun blóðfitu, meta má þá árangur eftir tiltekin tíma með því að athuga hvort lífslíkur hafi lengst við inntöku lyfsins. Gagnsemin er því aðallega af klínískum toga.

Líkurnar á andláti innan tíu ára

Í tilkynningu frá ÍE segir að gögn um 22.913 einstaklinga í lífsýnasafni ÍE hafi verið skoðuð en 7.061 höfðu látist á rannsóknartímabilinu.

Hægt var með líkaninu að finna þau 5 prósent úr hópi þátttakenda á aldrinum 60 til 80 ára, sem voru með 88 prósent líkur á því að deyja innan 10 ára, og einnig þau 5 prósent sem voru einungis með 1 prósents líkur á andláti innan áratugar.

„Þetta er flott en líka fremur ógnvekjandi en vonandi kemur þetta að gagni“

Athyglisvert er að þeir sem mældust líklegir til að eiga skammt eftir ólifað voru einnig ekki eins handsterkir og hinir og stóðu sig verr á þrekprófi og sýndu lakari árangur í hugrænum verkefnum, segir í upplýsingur frá Íslenskri erfðagreiningu í dag.