Sníkju­dýrið Leis­hmania greindist ný­verið í fyrsta skipti í hundi hér á landi. Hundurinn var fluttur hingað til lands frá Spáni árið 2018 en helsta smit­leið sníkju­dýrsins er með sand­flugum. Verið er að rann­saka hvort fleiri dýr hafi smitast.

Leis­hmania hefur ekki greinst áður í hundi né öðrum dýrum hér á landi en hefur greinst í fólki sem hefur smitast í út­löndum, að því er segir í til­kynningu frá Mat­væla­stofnun. Um er að ræða frum­dýr sem berst oftast milli ein­stak­linga, bæði manna og dýra, með sér­stökum tegundum af sand­flugum sem lifa ekki hér á landi. Smitið getur einnig borist milli hunda við pörun, frá tíkum til hvolpa, og dæmi eru um að smit geti borist við bit. Smitið berst ekki milli hunda eða í önnur dýr við snertingu.

„Ein­kenni sjúk­dómsins í hundum eru breyti­leg, allt frá stað­bundnum sýkingum í húð yfir í sýkingar í flestum innri líf­færum, sem geta valdið dauða. Með­höndlun er erfið og ó­lík­legt að með henni náist að ráða niður­lögum sýkingarinnar að fullu en með­höndlunin getur hægt á sjúk­dóminum og haldið niðri ein­kennum,“ segir í til­kynningunni.

Hundurinn hefur verið notaður á nokkrar tíkur við ræktun og undan honum er komið eitt got. MAST hefur gefið út fyrir­mæli um að hundurinn verði ekki paraður við fleiri tíkur og verið er að rann­saka hvort tíkurnar hafi smitast.