Nýtt kerfi um rauntímakomur strætisvagna sem innleitt var í mörg strætóskýli borgarinnar lá niðri fljótlega eftir að kveikt var á kerfinu í morgun en að sögn Guðmundar Heiðars Helgasonar, upplýsingafulltrúa Strætó, réð vefþjónninn ekki við öll þau gögn sem sett voru í kerfið.

Kerfið hafði verið í prufukeyrslu í tvær vikur í tveimur skýlum og gekk þá allt vel fyrir sig en í dag var kerfið innleitt í 56 biðskýli. Að sögn Guðmundar er stefnan sett á að koma kerfinu inn í nokkur valin skýli í miðborginni og bæta síðan fleiri skýlum við þegar líður á daginn.

„Þeir ætla að byrja á að setja þetta í nokkur bara og svo ætla þeir að byrja að bæta við fleiri skýlum. Þessi skýli verða í heildina eitthvað um hundrað talsins í Reykjavík svo gæti verið að fleiri sveitarfélög fari að bætast inn í líka, þannig þetta er allt vonandi bara að gerast,“ segir Guðmundur.

Stefnan sett á 210 skýli og upplýsingar í appið

Að sögn Guðmundar hefur verkefnið vakið mikla lukku og segir hann að með verkefninu sé verið að eyða óvissu og bæta upplifun fólks. „Ef ég segi þér að þú þurfir að bíða í tíu mínútur, þá mun það ekki líða eins hægt og ef þú veist ekki að þú þarft að bíða í tíu mínútur,“ segir hann.

Verkefnið miðar við 210 rafræn biðskýli verði sett upp en í þeim verða rauntímaupplýsingar um komur strætisvagna sýnilegar efst á auglýsingaskjánum í skýlinu. Þá er stefnt á að koma upplýsingunum inn í Strætó appið þannig hægt sé að nálgast upplýsingar þrátt fyrir að vera ekki í rafrænu skýli.