„Við fengum þennan styrk rétt fyrir jólin og þá tókum við þessa ákvörðun,“ hefur blaðið eftir Kristínu Davíðsdóttir, teymisstjóra skaðaminnkuarteymis Frú Ragnheiðar, skaðaminnkunarverkefnis Rauða krossins á höfuðborgarsvæðinu.

Naloxone er nefúðalyf sem notað er í tilfellum öndunarbælingar hjá notendum ópíóíða. „Það sem gerist er þegar fólk tekur of mikið af morfíni, eru öndunarbælandi áhrif. Fólk hættir að handa þegar það tekur of mikið, en morfínið sest á ákveðna viðtaka í frumum líkamans,“ útskýrir Kristín.

„Naloxonið keppir við morfínið um þessi sæti á þessum viðtökum og nær að ýta morfíninu frá, þannig að fólk fer að anda.“

Hver skammtur kostar sjö til átta þúsund

Að sögn teymisstjórans eru þetta frábærar fréttir fyrir þeirra skjólstæðinga. „Tilkoma málsins er sú, en þetta hefur verið lengi í umræðunni, að þetta er dýrt lyf. Hver skammtur kostar um sjö til átta þúsund krónur. Fólk vill ekki láta skrá þetta í sjúkraskrá.“

„Það eru fjársterkir aðilar sem eru á bakvið okkur sem ætla að fjármagna þetta til að byrja með. Það eru gerðar kröfur um að það sé ákveðin fræðsla sem sá sem fær lyfið fái, og við munum útbúa þá fræðslu. Hún er þó mikið til aðgengileg á netinu. Við munum afhenda notendum hana að kostnaðarlausu.“

Nýtt neyslurými opni um miðjan febrúar

Kristín segir að einn skammtur sé nefsprey. „Maður gefur fyrri skammtinn og bíður síðan í tvær til fjórar mínútur. Ef viðkomandi er ekki farinn að sýna viðbrögð er seinni skammturinn gefinn.“

Hún bætir við að mikilvægt sé að hafa í huga að efnið hafi mun styttri helmingunartíma en morfínið. „Þannig að fólk þarf samt að fara í eftirlit,“ útskýrir hún.

Frú Ragnheiður mun opna nýtt neyslurými um miðjan febrúar. „Það er gamla Frú Ragnheiður, gmali bíllinn okkar. Þá verður þetta að svipaðri fyrirmynd, Fixelansen, sem er í Kaupmannahöfn. Þetta byrjaði þannig og við erum að gera þetta áfram eftir þeirri fyrirmynd, þó að þetta sé komið miklu lengra þar,“ segir teymisstjórinn. „En þetta er bara til eins árs til að byrja með.“

„Fólk hefur [fram að þessu] verið að fá lyfið eftir krókaleiðum og hefur þurft að beita þessu í heimahúsum,“ segir hún. „Þetta er mjög stórt skref fyrir þennan hóp og stórt lýðheilsumál.“

Frú Ragnheiður vill koma því á framfæri að Hafrún Elísa Sigurðardóttir svari frekari erindum um málið.