Möguleg breyting á nafni sjúkdómsins apabólu verður rædd á fundi sóttvarnarráðs um miðjan desember. Þetta segir Guðrún Aspelund, sóttvarnarlæknir, en hún segir ákvörðunina liggja hjá sóttvarnarlækni og embætti landlæknis.
Fyrr í vikunni tilkynnti Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin að stofnunin hefði breytt alþjóðlega nafninu á sjúkdómnum apabólu, sem áður hét Monkeypox. Nýtt nafn skyldi vera Mpox.
Guðrún segir breytingu á nafninu hafa verið rædda hérlendis, enda hafi það verið umræðunni í svolítinn tíma. „Mér þykir líklegt að við breytum nafninu og verðum þá í samræmi við alþjóðlega nafnagift til að einfalda hluti,“ segir Guðrún.
Sem fyrr segir verður nafngiftin rædd á fundi sóttvarnarráðs um miðjan desember en Guðrún segir ákvörðun verða tekna í framhaldi af því. „Þá mun þetta koma inn í sjúkraskránna fyrir næsta ár,“ segir hún.
Aðspurð hvort nýtt nafn gæti orðið í svipuðum dúr og mbóla eða abóla, segir hún að það gæti vel verið.
Í tilkynningu frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni þar sem greint var frá breytingunni, segir að nafnið Monkeypox, sem er áratugagamalt, hafði verið tengt við mismunun og kynþáttafordóma.
Samkvæmt upplýsingum frá sóttvarnarlækni hafa 16 manns greinst með apabólu hérlendis. 319 manns hafa þegið að minnsta kosti eina bólusetningu gegn sjúkdómnum en 209 hafa lokið tveimur.