Dagana 2.-7. ágúst fara fram Hinsegin dagar í Reykjavík. Bjarni Snæbjörnsson, sem slegið hefur í gegn í sýningunni Góðan daginn faggi, flytur lag hátíðarinnar í ár. Lagið er eftir Axel Inga Árnason og er endurhljóðblöndun af laginu Næs úr Góðan daginn faggi. Bjarni segist afar spenntur fyrir hátíðinni.

„Eins og ég sagði áðan þá eru allir dagar hjá okkur hinsegin dagar. En á þessari dásamlegu hátíð okkar erum við sérstaklega sýnileg og fögnum með gleðina að vopni,“ segi hann og vonar að sem flest taki þátt í hátíðinni og sýni stuðning.

„Það ættu bara öll að mæta í gleðigönguna til dæmis. Gera sér glaðan dag, fagna fjölbreytileikanum og sýna stuðning sinn í verki. Koma með börnin sín, vini og fjölskyldu og sýna þeim og sjá sjálf að það eru til fyrirmyndir fyrir öll,“ segir Bjarni en gangan fer fram laugardaginn 6. ágúst og leggur af stað frá Hallgrímskirkju klukkan 14.

Sannkölluð diskógleði

Lagið, Næs, var frumflutt í Bakaríinu á Bylgjunni í morgun og segir Bjarni að um sannkallaða diskógleði með djúpum skilaboðum sé að ræða. „Þetta er baráttusöngur þar sem við gerum okkur grein fyrir sársaukanum og skömminni sem hefur verið innrætt í okkur gegnum hið samfélagslega „norm” og biðlar til alls fólks um að leyfa öllum að tilheyra, sem er grundvallarþörf mannsins,“ segir hann.

Texti lagsins, sem er eftir Bjarna og Grétu Kristínu, er að sögn Bjarna draumsýn sem hann vonar að rætist sem fyrst. „Það væri rosa næs, ef fengi ég að vera sá sem ég er, og ekkert þyrft’að fela,“ segir til að mynda í laginu. „Þetta þyrfti ekki að vera svona flókið, snýst bara um að setja sig í spor annarra og hlusta á það sem fólk hefur að segja,“ segir Bjarni.

Hér má sjá texta lagsins:

Næs

Mikið væri það nú næs, að leyfa sér að dreyma

Það væri næs, að vita hvar ég á heima

það væri rosa næs, ef fengi ég að vera

sá sem ég er, og ekkert þyrft’að fela

og ég vissi upp á hár, hvaða mann ég hef að geyma

það væri næs, að finna hvar ég á heima

Bros gegnum tár

Græðir mín sár

Ennþá hér eftir öll þessi ár.

Mig langar svo, nýja sögu að skrifa

Og alla leið, lífinu að lifa

Ég vil allt, vil það strax, ég vil meira

Mikið verður það næs er við öll megum fá að tilheyra

Það er svo rosa næs, að leyfa sér að vona

Að öll gætu séð, við erum bara svona

Það er svo næs að þurfa bara að elska

Bros gegnum tár

Græðir mín sár

Ennþá hér...

Mig langar svo, nýja sögu að skrifa

Og alla leið, lífinu að lifa

Ég vil allt, vil það strax, ég vil meira

Mikið verður það næs er við öll megum fá að tilheyra